„Ef kennslanefnd væri ekki rugluð í kollinum“

Kári Stefánsson og hans fólk rannsaka nú uppruna höfuðkúpu er …
Kári Stefánsson og hans fólk rannsaka nú uppruna höfuðkúpu er fannst í Ráðherrabústaðnum. Kára liggur þó meira á hjarta. mbl.is/Hallur Már

„Hugmyndin er sú að einangra úr höfuðkúpunni DNA og í framhaldinu kanna röð niturbasa í því DNA og bera saman við niturbasa úr 70-80 þúsund Íslendingum sem við höfum rakað inn erfðamengi úr,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is um rannsókn fyrirtækis hans á höfuðkúpu þeirri er nýlega fannst í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu og fjölmiðlum hefur orðið tíðrætt um síðustu daga.

„Svo vörpum við þessu yfir á það sem við vitum um ættfræði Íslendinga. Með því að gera það getum við líklega greint frá því að þetta sé höfuðkúpa einhvers frá 19. öld og getum þá sagt ykkur hver þessi manneskja var alveg upp á hár,“ heldur forstjórinn áfram.

Höfuð sem skoppaði niður brekku

Telur hann ekki ólíklegt að kúpan komi úr Hólavallakirkjugarði sem áður hafi teygt anga sína út fyrir núverandi veggi, „maður veit það ekki en við komum til með að komast að raun um þetta allt saman, ég reikna með að við vitum þetta í lok þessa mánaðar. Þá verði hægt að grafa þessi bein og setja nafn á legsteininn.

Ef við myndum ekki gera þetta væri ekki annað hægt en að grafa þetta og setja síðan á legsteininn „Hér liggur höfuð sem skoppaði niður brekku og endaði í Ráðherrabústað“. Í stað þess að þurfa að skrifa svo virðingarlausa setningu á legstein vonum við að þar standi fremur nafn á manni,“ segir Kári.

En hvað kemur til að þið bjóðið fram þessa þjónustu?

„Við höfum ákveðnum skyldum að gegna við það samfélag sem við búum í. Við búum yfir ákveðinni þekkingu sem á rætur sínar í gögnum um fólk sem hefur viljað taka þátt í rannsóknum hjá okkur. Við búum að ákveðnum aðferðum sem við höfum þróað á síðasta aldarfjórðungi til að ráða í DNA og setja þær upplýsingar sem koma út úr því í samhengi,“ heldur forstjórinn áfram.

Kári steig fram í heimsfaraldrinum og lagði Íslendingum lífsreglurnar.
Kári steig fram í heimsfaraldrinum og lagði Íslendingum lífsreglurnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kveður hann Íslendinga ávallt hafa verið upptekna af ættfræði og ekki skorti því áhugann á að vita hvaðan höfuðkúpur, sem spretta upp úr jörðinni, koma. Sé Íslenskri erfðagreiningu hvort tveggja ljúft og skylt að aðstoða við öflun slíks fróðleiks.

Geta og þekking til staðar

„Ef kennslanefnd [ríkislögreglustjóra] væri ekki dálítið rugluð í kollinum myndi hún biðja okkur að hjálpa sér við að bera kennsl á lífssýni og líkamsparta sem finnast á Íslandi í stað þess að taka sýni og senda í einhvers konar útkjálkarannsóknarstofu í Svíþjóð. Við leiðum heiminn raunverulega á þessu sviði og það er alveg sjálfsagt að samfélagið nýti sér að þessi geta og þekking sé til staðar,“ segir Kári.

Játar forstjórinn þó að illa sé gert að henda skít í kennslanefndina, „en menn eru svolítið áhyggjufullir yfir því hvort svona rannsóknarstofa hafi tilskilin leyfi og svo framvegis. Það er enginn vandi fyrir okkur að fá þau leyfi, það þarf bara að vera vilji fyrir því að nýta sér aðstöðu okkar, en við förum ekki að sækja um leyfi fyrr en menn lýsa áhuga sínum á að nýta þetta,“ heldur Kári áfram og vendir svo kvæði sínu í kross í viðtalinu.

Höfuðkúpan sem fannst í Ráðherrabústaðnum rekur rætur sínar líklegast til …
Höfuðkúpan sem fannst í Ráðherrabústaðnum rekur rætur sínar líklegast til Hólavallakirkjugarðar. Ljósmynd/Íslensk erfðagreining

„Einu sinni kom Jón Gunnarsson, þáverandi dómsmálaráðherra, í heimsókn til okkar niður í Íslenska erfðagreiningu til að ræða þann möguleika að við færum að hjálpa lögreglunni við DNA-greiningar, við að bera kennsl á líkamsparta og hver hefði skilið eftir lífssýni á vettvangi glæps,“ rifjar Kári upp.

Tilraunir á föngum

„En við vorum varla sestir niður og farnir að ræða um þetta þegar hann breytti um umræðuefni og fór að ræða um löngun sína til að fara að gera psilocybin [virka efnið í ofskynjunarsveppum]-tilraunir á íslenskum föngum. Hann var mjög upptekinn af því blessaður maðurinn. Einhvern veginn hefur það farið fram hjá honum að síðan í síðari heimsstyrjöldinni hefur það ekki þótt fínt að gera tilraunir á föngum,“ segir Kári og glottir við tönn svo heyra má gegnum símtal.

Ekki segist hann hafa vitað hvernig dómsmálaráðherra hafi ætlað að stilla þeirri tilraun upp „og ekki veit ég hvað hann ætlaði að fá út úr því, en hann ætlaði að fara að gefa föngum á Íslandi psilocybin. Menn eru mjög uppteknir af þessu. Hér á Íslandi og víðar eru komnar alls konar skuggaklíníkur þar sem menn koma og fara á psilocybin-tripp,“ segir Kári frá.

Hvað finnst þér um það, heldurðu að efnið geti haft jákvæð áhrif á þunglyndissjúklinga?

„Sko, ef þetta er gefið undir réttum kringumstæðum, eins og er verið að gera á þessum skuggaklíníkum á Íslandi, þeir senda fólk til sálfræðings í nokkra tíma áður en það fer á þetta tripp og svo nokkra tíma á eftir, þá held ég að þetta valdi engum skaða. En ég held að það sé líklegra að þetta búi til nýja vídd í líf venjulegs fólks frekar en að lækna þunglyndi.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á vettvangi beinafundarins í risinu í Ráðherrabústaðnum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á vettvangi beinafundarins í risinu í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári þverneitar þó að hann hafi hugleitt neyslu psilocybins, „fólk er alltaf að segja við mig „Kári, þú verður að prófa þetta maður, eftir að hafa farið í gegnum þetta hugsar fólk öðruvísi,“ en ég hef engan áhuga á að hugsa öðruvísi en ég geri, ég er fyllilega sáttur við hvernig ég hugsa sem bendir til að mig skorti algjörlega innsæi,“ segir Kári og hlær svo undir tekur en er tímabundinn til viðtals þar sem dóttir hans bíður hans.

Leggjum við því talið hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert