Íslensk stjórnvöld hafa undirritað samning við Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) um fjárstuðning til þróunarríkja við að koma á fót sjálfbærri fiskveiðistjórnun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu en Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd í Genf í Sviss við sérstakt tilefni ásamt Okonjo-Iweala, framkvæmdastýru Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Stuðningurinn nemur 500 þúsund svissneskum frönkum, sem jafngildir um 76 milljónum íslenskra króna.
Þá átti ráðuneytisstjóri sömuleiðis fund með aðstoðarframkvæmdastýru WTO í tengslum við samningaviðræður um ríkisstyrki í sjávarútvegi, sem Einar Gunnarsson fastafulltrúi Íslands í Genf, stýrir.