„Hverra manna þú ert skiptir máli“

Formennirnir tveir tókust á um efnahagsmál í dag.
Formennirnir tveir tókust á um efnahagsmál í dag. Samsett mynd

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið frá því að vera flokkur stöðugleika í að vera flokkur skattalækkana og einkareksturs fyrst og fremst.“

Þetta sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, á Sprengisandi í dag þar sem hún mætti Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. Formennirnir tveir ræddu verðbólgu, skatta og velferðarkerfið.

Samfleytt stöðugleikatímabil

Bjarni andmælti þessum orðum Kristrúnar og benti á að samfleytt stöðugleikatímabil hafi ríkt hér þangað til heimsfaraldur skall á.

„Meðalverðbólgan frá 2013-2020 var 2,4%. Verðbólgan fór fjórum sinnum á þessum árum fram úr vikmörkum Seðlabankans.“

„Síðan við komum aftur í ríkisstjórn, tókum við af stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem var rekin úr Stjórnarráðinu í kosningunum, þá hefur verið hér samfleytt stöðugleikatímabil þar til við lendum í heimsfaraldri og síðan kemur stríð.“

Gaman að hlusta á Kristrúnu

Bjarni og Kristrún tókust mikið á um skattamál. Hafa þau ekki sömu hugmyndir um hvernig skattleggja eigi landsmenn.

„Það er svolítið gaman að hlusta á Kristrúnu tala um skattana, því að það er aldrei nóg,“ sagði Bjarni og benti á að Ísland væri eitt farsælasta velferðarríki í heimi:

„Það þarf enginn að segja mér það að til að gera betur þá þurfi bara að hækka skattana. Þetta endar auðvitað alltaf með því að þú drepur allt niður í dróma vegna þess að þú hættir aldrei á að fá hugmyndir um hvað þú getir gert með annarra manna fé.“

Ákveðin uppgjöf

Kristrún er sammála Bjarna um að gott sé að búa á Íslandi en telur orð hans lýsa ákveðni uppgjöf.

„Varðandi þessa umræðu um hvað það er allt frábært hérna, ég meina það er mjög gott að búa á Íslandi. Ég geri ekki athugasemd við þann málflutning. En mér finnst þetta lýsa ákveðni uppgjöf og metnaðarleysi um að við getum ekki gert betur,“ sagði Kristrún.

„Við vitum það að heimurinn er ekki svona einfaldur“

Kristrún andmælir því hins vegar að vinstri menn vilji hirða peninga af fólki vegna hugmynda þeirra um hvað sé hægt að gera með fé almennings. 

„Að stilla þessu fram að vinstri menn vilji bara hirða peninga af fólki vegna þess að við séum svo klár og vitum betur. Það sem við vitum einfaldlega er að fólk þarna úti, þeirra líf er ekki allt tilfallandi út af eigin gjörðum. Við búum bara í heimi þar sem að fólk fæðist inn í mismunandi fjölskyldur.

Hverra manna þú ert skiptir máli. Hvort að 600.000 krónur á mánuði er að fara vera nóg til að halda heimilið þitt eða ekki. Eftir því hvort að fjölskyldan þín getur borgað undir þig húsnæði ef að þú þarf að fara á leigumarkað. Það skiptir máli hvort þú hafir verið að glíma við fötlun eða aðra þætti. Við vitum það að heimurinn er ekki svona einfaldur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina