„Líðum ekki fordómafullar yfirlýsingar“

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Aðalstjórn nemendafélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem bent er á ábyrgð framhaldsskólakennara og að ekki sé alltaf viðeigandi fyrir þá að tjá skoðanir sínar opinberlega. 

Yfirlýsingin er birt í kjölfar bloggfærslna Páls Vilhjálmssonar, kennara við skólann, þar sem hann fullyrti að Sam­tök­in '78 væru í hópi með aðilum sem aðhyll­ist barnagirnd. Einnig að trans fólk væri haldið rang­hug­mynd­um. Hluti færslunnar var endurbirtur í Staksteinum Morgunblaðsins á fimmtudag.

Í yfirlýsingu nemendafélagsins segir að félagið styðji ekki fordóma gegn hinsegin fólki og er kemur að hatursorðræðu sé rétt að stíga fast til jarðar og vinna gegn því. 

„Við líðum ekki fordómafullar yfirlýsingar á vegum kennara okkar skóla,“ segir í yfirlýsingunni. 

Eigi að vita betur 

Þá er bent á að meirihluti nemenda skólans séu börn og að fullorðið fólk í trúnaðarstöðum eigi að vita betur, „en að skrifa með þessum hætti á samfélagsmiðla þegar augljóst er að hluti nemenda FG tilheyrir umræddum hópi“.

Í yfirlýsingunni er minnst á að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem þessi umræða kemur upp og heitir stjórnin því gera sitt allra besta til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. 

„Okkur finnst leiðinlegt að þetta hafi átt sér stað í okkar skóla og erum við sár fyrir hönd þeirra sem þetta hafði áhrif,“ segir að lokum og ítrekað að skoðanir Páls endurspegli ekki viðhorf stjórnar nemendafélagsins.mbl.is

Bloggað um fréttina