„Með illvígari krabbameinum sem við fáumst við“

Landspítalinn er að fara af stað með hááhættueftirlit með einstaklingum …
Landspítalinn er að fara af stað með hááhættueftirlit með einstaklingum sem eru í aukinni áhættu á að þróa með sér briskrabbamein. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landspítalinn er að fara af stað með hááhættueftirlit með einstaklingum sem eru í aukinni áhættu á að þróa með sér briskrabbamein og hrindir um leið af stað stórri rannsókn á gagnsemi eftirlits í samstarfi við bandaríska rannsakendur.

Sigurdís Haraldsdóttir, yfirlæknir krabbameinslækninga á Landspítalanum og dósent við Háskóla Íslands, heldur utan um verkefnið en briskrabbamein er flokkað sem mjög alvarlegt krabbamein.

„Þetta er með illvígari krabbameinum sem við fáumst við. Það greinast um 40 tilfelli á ári á Íslandi og álíka fjöldi deyr árlega. Þegar talað er um horfur þá ræðum við oft um fimm ára lifun. Það er þá fjöldi sjúklinga sem er á lífi eftir fimm ár. Hér á Íslandi er fimm ára lifun um 10% og hefur afskaplega lítið breyst á síðustu árum. Þetta er svipað og í löndunum í kringum okkur. Það sker sig úr frá öðrum krabbameinum að því leyti hvað horfur hafa batnað lítið,“ segir Sigurdís í samtali við mbl.is.

Fólk með arfgeng heilkenni í aukinni áhættu

Hverjir eru helstu áhættuþættirnir á að greinast með briskrabbamein?

„Áhættuþættirnir sem við getum haft áhrif á með okkar lífstíl eru hlutir eins og reykingar, mikil áfengisneysla og offita. Þessir áhættuþættir auka hættuna um tvöfalt. Þar að auki getur sykursýki og krónísk brisbólga aukið áhættuna en það sem skiptir mestu máli eru erfðirnar. Það er hópurinn sem við erum að einbeita okkur að í þessu hááhættueftirliti.

Sigurdís Haraldsdóttir, yfirlæknir krabbameinslækninga á Landspítalanum og dósent við Háskóla …
Sigurdís Haraldsdóttir, yfirlæknir krabbameinslækninga á Landspítalanum og dósent við Háskóla Íslands Mynd/hi.is

Fólk með ákveðin arfgeng heilkenni er í aukinni áhættu á að fá þetta briskrabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Við erum að tala bæði um þá sem eru með sterka fjölskyldusögu og þar á ég við fólk sem er með sögu um tvo eða þrjá fjölskyldumeðlimi sömu megin fjölskyldunnar með þetta krabbamein, þar sem alla vega einn einstaklingur er skyldur þeim í fyrstu gráðu, það er að segja foreldri eða systkin.

Hinn hópurinn er fólk sem ber stökkbreytingar í ákveðnum genum og er með fjölskyldusögu um briskrabbamein eins og BRCA2 arfberar og arfberar með stökkbreytingar í ATM og PALB2 geninu. Svo eru önnur sjaldgæfari heilkenni sem hafa aukna áhættu á briskrabbameini og eiga líka að vera í eftirliti. Það eru meðal annars einstaklingar með stökkbreytingar í CDKN2A geninu og STK11 geninu.

Við hvetjum fólk sem er með sterka fjölskyldusögu um briskrabbamein til að hafa samband við okkur á erfðaráðgjöfinni í gegnum vefsíðu erfðaráðgjafar Landspítalans og sömuleiðis BRCA-arfberar sem eru með fjölskyldusögu um briskrabbamein sem er stærsti hópurinn,“ segir Sigurdís. 

Meðalaldur við greiningu 73 ár

Er erfitt að fást við briskrabbamein?

„Já það hefur reynst mjög erfitt og fyrir því eru nokkrar ástæður. Fyrir það fyrsta þá veldur það einkennum seint í ferlinu. Um 50% af fólki er komið með sjúkdóm á stigi 4 við greiningu, það er að segja er með meinvörp við greiningu. Brisið er staðsett aftarlega í kviðnum framan við stórar æðar og taugar og því reynist oft erfitt að skera briskrabbamein. Einungis um 20% af fólki reynist með skurðtækan sjúkdóm við greiningu,“ segir Sigurdís.

Hún segir að meðalaldur við greiningu sé um 73 ár og því sé briskrabbamein aðallega sjúkdómur eldra fólks.

„Við sjáum þó líka alltaf einhverja unga einstaklinga sem greinast með sjúkdóminn og við tókum nýlega út öll greind briskrabbamein á síðustu 20 árum og um 4% tilfella voru hjá fólki undir fimmtugu.“

Hvernig mun þetta hááhættueftirlit fara fram?

„Við erum annars vegar að byrja eftirlit með þeim sem eru í hárri áhættu og það fer þá þannig fram að fólk kemur í erfðaráðgjöfina. Við metum hvort eftirlit eigi við eða ekki og ef það á við þá fer fólk í blóðprufu einu sinni á ári og fer í segulómun á brisi einu sinni á ári. Þetta er eftirlit sem hefst við 50 ára aldur nema ef það væri einhver mjög ungur einstaklingur í fjölskyldunni sem greinist með briskrabbamein. Þá gæti þurft að byrja eftirlit fyrr.“

Bæta 5 ára lifun úr 10% upp í 50%

Þetta hááhættueftirlit er að fara í gang á Landspítalanum en samhliða því erum við að ganga inn í stóra rannsókn sem nefnist PRECEDE. Þessi rannsókn fer fram út um allan heim. Það eru um 50 spítalar aðilar að rannsókninni og er stýrt frá New York háskólanum af Dr. Diane Simeone. Ætlunin er að safna upplýsingum um 10.000 einstaklinga sem eru í svona hááhættueftirliti fyrir briskrabbamein. Safna blóði einu sinni á ári, safna upplýsingum um þessar segulómanir, erfðabreytileika og áhættuþætti.

Það er gert til þess að læra sem mest, bæði um áhættuna á því að fá briskrabbamein, gangsemi eftirlitsins og til að sjá hvort það sé hægt að nota blóðpróf í framtíðinni til að snemmgreina briskrabbamein. Tilgangur eftirlitsins er auðvitað sá að annað hvort að reyna að koma í veg fyrir briskrabbamein með því að geta brugðist við því að finna forstig briskrabbameins eða að snemmgreina það, það er að ná því þegar það er á stigi eitt og meðan það er ennþá skurðtækt.

Markmið rannsóknarinnar er að bæta þessa fimm ára lifun úr 10% upp í 50% á næstu tíu árum sem er svo sannarlega háleitt markmið. Við bindum miklar vonir við það að hááhættueftirlit eigi eftir að breyta horfum í þessum erfiða sjúkdómi,“ segir Sigurdís.

mbl.is