Ákærð fyrir ræktun, innflutning fíkniefna og þvætti

Fólkið er m.a. ákært fyrir peningaþvætti, innflutning á kókaíni og …
Fólkið er m.a. ákært fyrir peningaþvætti, innflutning á kókaíni og ræktun kannabisefna. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður og kona á fertugsaldri hafa verið ákærð af embætti héraðssaksóknara í tengslum við fíkniefna- og peningaþvættismál. Karlmaðurinn er ákærður fyrir að hafa haft kannabisplöntur og kannabisefni í fórum sér, fyrir innflutning á kókaíni og fyrir að hafa þvættað tæplega 50 milljónir króna andvirði fíkniefnasölunnar. Konan er hins vegar ákærð fyrir hluta af fíkniefnabrotunum og fyrir að hafa tekið þátt í að þvætta 7,5 milljónir.

Í ákæru málsins er manninum gert að sök að hafa haft í vörslum sínum 70 kannabisplöntur og 1,5 kg af kannabislaufum og að hafa um nokkurt skeið ræktað slíkar plöntur. Var hann tekinn fyrir umrædd brot í nóvember 2019.

Nokkrum mánuðum síðar, eða í mars 2020, er hann sagður hafa staðið á bakvið innflutning á tæplega 2 kg af kókaíni með 55-56% styrkleika frá Frakklandi, en í ákærunni kemur fram að annar maður hafi flutt efnin inn með flugi frá París og falið þau í farangri sínum.

Þau eru svo bæði ákærð fyrir að hafa haft í fórum sínum 240 grömm af marihúana í maí 2020 í íbúð í Mosfellsbæ.

Að lokum eru þau ákærð fyrir peningaþvætti sem tengist sölu fíkniefna. Maðurinn er ákærður fyrir að hafa á árunum 2017 til 2020 aflað sér samtals 50 milljóna með sölu og dreifingu á fíkniefnum og „eftir atvikum af annarri refsiverðri háttsemi.“ Lagði maðurinn 43,6 milljónir af heildarupphæðinni inn á bankareikning sinn með innborgunum frá einstaklingum og fyrirtækjum annars vegar og með reiðufjárinnlögnum hins vegar. Þá skipti hann um 6 milljónum í reiðufé yfir í erlendan gjaldeyri. Segir í ákærunni að hann hafi nýtt ávinning brotanna í eigin þágu, meðal annars til að standa undir framfærslu þeirra tveggja.

Konan er ákærð fyrir þátttöku í peningaþvættinu með því að hafa á sama tímabili tekið við, nýtt, umbreytt eða geymt ávinning af sölu og dreifingu efnanna, samtals 7,5 milljónum. Voru peningarnir lagði inn á reikning hennar, en hún nýtti þá jafnframt til að kaupa erlendan gjaldeyri.

mbl.is