Ákefð yfir mörkum en fjallið ekki hreyfst

Miklar skriður féllu á byggð á Seyðisfirði árið 2020.
Miklar skriður féllu á byggð á Seyðisfirði árið 2020. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engin sýnileg hreyfing er á fjallinu Strandatindi á Seyðisfirði samkvæmt mælitækjum Veðurstofunnar. Hins vegar er úrkoma yfir viðmiðunarmörkum og af þeim sökum hefur hluti byggðar verið rýmdur. 

Eins og fram kom fyrr í dag voru hús rýmd á Strand­ar­veg­i og við Hafnargötu. 

Langt yfir viðmiðunarmörkum

„Við höfum ekki fengið fréttir af neinum hreyfingum í fjallinu en hins vegar eru viðmið um úrkomumagn og ákefð yfir mörkum. Þessar spár sem við erum að fá núna eru langt yfir þessum viðmiðunarmörkum,“ segir Esther Hlíðar Jensen ofanflóðasérfræðingur á snjóflóða- og skriðuvakt Veðurstofu Íslands.

Að sögn hennar verður vakt á Veðurstofunni í alla nótt auk þess sem menn eru á staðnum við að vakta svæðið. Sérstaklega verður fylgst með vatnsstöðunni, t.a.m. í borholum að sögn Estherar.

Eins og margir þekkja féllu aurskriður á Seyðisfirði árið 2020 með þeim afleiðingum að hús fóru af grunnum sínum.  

Lögregla biðlar til fólks að fara með gát 

Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi á Facebook er fólk á Austfjörðum beðið um að fara með gát á ferð sinni um vegi fjórðungsins. 

Á það ekki síst við þar sem ekið er undir bröttum hlíðum, svo sem við Kambanes og Njarðvíkurskriður, við Grænafell, Hólmaháls og fleiri slíka staði,“ segir í tilkynningu. 

Athygli vekur að lögregla birti eingöngu tilkynninguna á Facebooksíðu sinni en sendi ekki á innlenda fjölmiðla. 

mbl.is