Engin sýnileg hreyfing er á fjallinu Strandatindi á Seyðisfirði samkvæmt mælitækjum Veðurstofunnar. Hins vegar er úrkoma yfir viðmiðunarmörkum og af þeim sökum hefur hluti byggðar verið rýmdur.
Eins og fram kom fyrr í dag voru hús rýmd á Strandarvegi og við Hafnargötu.
„Við höfum ekki fengið fréttir af neinum hreyfingum í fjallinu en hins vegar eru viðmið um úrkomumagn og ákefð yfir mörkum. Þessar spár sem við erum að fá núna eru langt yfir þessum viðmiðunarmörkum,“ segir Esther Hlíðar Jensen ofanflóðasérfræðingur á snjóflóða- og skriðuvakt Veðurstofu Íslands.
Að sögn hennar verður vakt á Veðurstofunni í alla nótt auk þess sem menn eru á staðnum við að vakta svæðið. Sérstaklega verður fylgst með vatnsstöðunni, t.a.m. í borholum að sögn Estherar.
Eins og margir þekkja féllu aurskriður á Seyðisfirði árið 2020 með þeim afleiðingum að hús fóru af grunnum sínum.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi á Facebook er fólk á Austfjörðum beðið um að fara með gát á ferð sinni um vegi fjórðungsins.
„Á það ekki síst við þar sem ekið er undir bröttum hlíðum, svo sem við Kambanes og Njarðvíkurskriður, við Grænafell, Hólmaháls og fleiri slíka staði,“ segir í tilkynningu.
Athygli vekur að lögregla birti eingöngu tilkynninguna á Facebooksíðu sinni en sendi ekki á innlenda fjölmiðla.