Miklar framkvæmdir hafa verið í gangi á svæðinu við Hálönd ofan Akureyrar undanfarinn rúman áratug. Svæðið er í landi Hlíðarenda við rætur Hlíðarfjalls. Félagið SS-Byggir hefur reist þar orlofshús og nú nýlega bættust tvö hótelhús við. Hótel Hálönd sjá um hótelreksturinn.
Helgi Örn Eyþórsson, verkefnastjóri hjá SS-Byggi, segir að alls séu nú 76 fullbúin hús sem búið sé að afhenda og fimm eru í byggingu, einnig seld og verða afhent kaupendum á komandi vetri, þannig að í allt er þetta 81 hús.
„Það er biðlisti eftir orlofshúsum í Hálöndum. Fyrirtækið getur byggt um það bil 30 hús til viðbótar á því landi sem er í eigu þess á svæðinu,“ segir hann og gerir ekki ráð fyrir öðru en að sú verði raunin. Þannig verða húsin á svæðinu yfir 100 í allt.
Í Hálöndum hefur fyrirtækið einnig byggt tvö glæsileg hótelhús með samtals 54 herbergjum. Þau eru komin í fullan rekstur hjá Hótel Hálöndum og bókunarstaða er góð. Herbergin eru fallega innréttuð og við hvert þeirra eru svalir eða sólpallur. Í kjallara er aðstaða fyrir skíði og reiðhjól, þurrkskápar og þvottaaðstaða fyrir þá gesti sem stunda útivist.