Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kveðst sammála Þorgerði Katrínu Gunnardóttur, þingmanni Viðreisnar, er hún spurði hann um mikilvægi aukins samstarfs hins opinbera við einkarekin fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
„Á Landspítalanum er núna rekin dýrustu gistirými landsins og þar fyrir er síðan gríðarlegt álag á heilbrigðisstarfsfólk,“ sagði Þorgerður áður en hún spurði ráðherra hvort hann væri sammála þingmönnum Viðreisnar að ríkið myndi fara af fullum þunga í samstarf við einkaaðila í heilbrigðis- og velferðarþjónustu til að fjölga hjúkrunarrýmum.
„Ég er sammála því,“ sagði Bjarni. „Nú vinnum við hæstvirtur heilbrigðisráðherra að nýrri stefnumótun um uppbyggingu hjúkrunarrýma til framtíðarinnar. Það er mitt álit að sú leið sem að við höfum farið til þessa, að tryggja framlög úr fjárlögum til þess að vera með opinberar framkvæmdir við byggingar hjúkrunarheimila hafi runnið sitt skeið.
Hann segir að gert hafi verið ráð fyrir 25 milljörðum í fjármálaáætlun fyrir árin 2020 til 2024 til þess að byggja hjúkrunarrými. Fjármagnið hafi þó ekki gengið út.
„Umræðan sem að þá gekk á um að það vantaði fjármagn í bygginga hjúkrunarýma hún var bara röng. Og það er mín skoðun að við eigum að hætta með opinberar áætlanir um það hvernig við byggjum rými og steypum upp með ríkissteypu hús. Bara tryggja fólki aðgengi að þessari þjónustu og treysta sjálfseignarstofnunum og öðrum sem eru að veita þessa þjónustu að gera sínar áætlanir um byggingu mannvirkjanna og við eigum síðan að greiða þeim fyrir það,“ sagði Bjarni.
Þorgerðir Katrín fagnaði orðum Bjarna um aukið samstarf við einkaaðila í heilbrigðisgeiranum. „Að hið opinbera fari í markvissa sókn í heilbrigðis- og öldrunarmálum, með það að markmiði að fjölga hjúkrunarrýmum.“