„Flugvirkjafélagið er náttúrulega ekki undir okkar hatti þannig að við þekkjum ekki málsatvikin þarna að baki en við þekkjum lögfræðina og höfum auðvitað fylgst með þessu máli frá því það hófst,“ segir Halldór Oddsson, sviðsstjóri lögfræði- og vinnumarkaðssviðs Alþýðusambands Íslands, í samtali við mbl.is um nýfallinn dóm Landsréttar þar sem staðfest var niðurstaða héraðsdóms.
Snerist málið um ferðatíma flugvirkja hjá Samgöngustofu og hvort hann teldist vinnutími eður ei. Deilt var um hvort ferðatími flugvirkjans frá Íslandi til Ísraels og til baka annars vegar og hins vegar frá Íslandi til Sádi-Arabíu og þaðan til baka teldist vinnutími. Hafði flugvirkinn aðeins fengið greidd dagvinnulaun á ferðalaginu en ekki tíma utan dagvinnu sem í ferðalögin fór.
Segir Halldór niðurstöðu málsins ekki eiga að koma neinum á óvart. „Þetta er alveg í samræmi við þessa dóma sem hafa verið að falla bæði í EFTA-dómstólnum og hjá dómstól ESB,“ segir Halldór og kveðst sammála Jóni Sigurðssyni, lögmanni flugvirkjans, sem mbl.is ræddi við fyrir helgi.
„Þetta hefur fordæmisgildi fyrir allan vinnumarkaðinn og ég veit ekki betur en að þetta sé praktíserað á almenna vinnumarkaðnum, ég man alla vega ekki eftir að hafa heyrt dæmi um annað. Margir sem eru að ferðast milli landa í vinnu sinni eru auðvitað oft hvítflibbar á pakkalaunum svo ekki er greitt sérstaklega fyrir þetta en það auðvitað tekið inn í launaákvörðun að hluti af starfinu geti verið að ferðast,“ útskýrir Halldór.
Hann segir hvort tveggja EFTA- og ESB-dómstólinn hafa styrkt ýmis grundvallaratriði tengd vinnutímamálum undanfarin ár og þar á meðal þetta. „Það að ferðast til og frá vinnu ef starfsstöðin á þessum tíma er ekki þessi fasta og skilgreinda starfsstöð þá telst ferðalagið til vinnutíma, það er mjög sterk og mikilvæg meginregla á vinnumarkaði,“ segir Halldór Oddsson að lokum.