Fyrsti Íslendingurinn til að vinna virt verðlaun

Ari Haack Marteinsson, framkvæmdastjóri Use Agency.
Ari Haack Marteinsson, framkvæmdastjóri Use Agency. Ljósmynd/Aðsend

Ari Haack Marteinsson, framkvæmdastjóri Use Agency, vann ásamt teyminu sínu til Red Dot-verðlaunanna fyrir endurhönnun útlits danska orkufyrirtækisins Aura Energi.

Er þetta í fyrsta skipti sem Íslendingur vinnur til verðlaunanna fyrir merkjahönnun en Red Dot eru ein virtustu hönnunarverðlaun í heiminum.

Hann bendir þó á að íslenska hönnunarstofan Gagarín hafi áður unnið til Red Dot-verðlauna fyrir sýningarhönnun. Sigurvegarar verðlaunanna í ár voru tilkynntir í gær en verðlaunaathöfnin verður haldin í Berlín þann 3. nóvember.

Hönnun Use Agency á bifreið Aura Energi.
Hönnun Use Agency á bifreið Aura Energi. Ljósmynd/Aðsend

Verðlaunin eru gæðuvottun

„Þetta eru alþjóðleg verðlaun og þau eru gefin innan vöruhönnunar, grafískrar hönnunar og sýningarhönnunar. Öll þau verkefni sem eru þess virði fá verðlaunin og það er alþjóðleg nefnd sem ákveður hvað er gott,“ segir Ari en hann tekur fram að verðlaunin séu ákveðin gæðavottun fyrir Use Agency.

Use Agency er hönnunarstofa í Árósum í Danmörku en stofan hefur meðal annars unnið með þekktum vörumerkjum á borð við Adidas og Lego. 

„Aðalþýðingin er fyrir viðskiptavini okkar. Þetta eru þá ekki bara við sem segjum að það sem við gerum er þess virði heldur er utanaðkomandi aðili sem staðfestir það að hönnunin okkar er mjög góð.“

Vinnan borgaði sig

Spurður hvaða þýðingu þetta hafi fyrir hann persónulega segir Ari þetta vera merki um að stofan sé að fara í rétta átt. Hann tekur einnig fram að þetta sé mikil viðurkenning fyrir þá miklu vinnu sem er búið að leggja fram.

„Maður vinnur marga, marga klukkutíma á sólarhring og í mörg ár og núna er kominn góður grunnur til að vinna stærri verkefni. Það að fá alþjóðleg verðlaun þýðir að þessi auka vinna og þessir löngu dagar séu að skila sér.“

Auglýsingaskilti sem að Use Agency hannaði fyrir orkufyrirtækið.
Auglýsingaskilti sem að Use Agency hannaði fyrir orkufyrirtækið. Ljósmynd/Aðsend

Endurhönnuðu allt útlit fyrirtækisins

Ari segir að stofan sé búin að vinna með Aura Energi í bráðum tvö ár. Hann tekur fram að þau hafi byrjað á að hanna PowerPoint skjal fyrir fyrirtækið og að eftir nokkra mánaða samvinnu endaði stofan á að endurhanna allt útlit fyrirtækisins. Þar má nefna hönnun á bifreiðum, vörumerki, markaðsherferðir, skilti, föt og penna ásamt fleiru.

„Endurhönnunin snerist mikið um að yngja upp Aura. Fá inn hreyfingu, ferskari liti, og meiri karakter. Að hanna vörumerki sem markhópurinn langar að eiga viðskipti við,“ segir Ari um hönnunarferlið.

mbl.is