Gætu þurft að vera „selektívari“ á nemendur

Al­ex­andra Ýr van Er­ven, forseti Landssamtaka Íslenskra stúdenta og Rakel …
Al­ex­andra Ýr van Er­ven, forseti Landssamtaka Íslenskra stúdenta og Rakel Anna Boulter, forseti stúdentaráðs Háskóla íslands. Samsett mynd

Forseti landssamtaka íslenskra stúdenta fagnar því að vinna við endurskoðun á fjármögnun háskólanna sé farin af stað. Fjármagnsdrifið kerfi veki þó upp ýmsar spurningar, til að mynda um hvort það muni leiða til aukinnar aðgangsstýringar. Forseti stúdentaráðs Háskóla Íslands tekur í sama streng, en segir jafnframt nauðsynlegt að bæta stuðningskerfið við nemendur.

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, há­skóla-, iðnaðar-, og ný­sköp­un­ar­ráðherra, kynnti í dag breyt­ingu á fjár­mögn­un há­skóla lands­ins. Nýja kerfið leys­ir af hólmi fyr­ir­komu­lag sem bygg­ir á reiknilíkani frá ár­inu 1999 og er komið til ára sinna að mati Áslaug­ar Örnu.

Fyrirkomulagið vekur ýmsar spurningar 

„Það er að vissu leyti mjög jákvætt að þessi vinna sé farin af stað, þetta hefur átt sér langan aðdraganda. Það er sömuleiðis jákvætt að tekið sé tillit til einhverra af þeim athugasemdum sem við lögðum áherslu á í þessu ferli. Má í því samhengi nefna sérstakt framlag sem fylgir innflytjendum og sömuleiðis að allir nemendur séu að einhverju leyti fjármagnaðir, sem er auðvitað mjög mikilvægt upp á að fjármagna stoðþjónustu,“ segir Alexandra Ýr van Erve,n forseti Landssamtaka Íslenskra stúdenta.

Samtökin hafa samt sem áður áhyggjur af ýmsum atriðum segir hún og nefnir sem dæmi að meirihluti fjármagnsins sé háð því að nemendur standist námsmat. „Það vekur upp ýmsar spurningar og þá kannski helst hvort að það muni leiða til aukinnar aðgangsstýringar, ef háskólarnir fá einungis greitt með þeim nemendum sem ljúka námi. Þá gætu skólarnir þurft að vera selektívari á það hverjum þeir hleypa inn,“ segir hún.

Áslaug Arna kynnti árangurstengda fjármögnun háskóla á fundi í Grósku …
Áslaug Arna kynnti árangurstengda fjármögnun háskóla á fundi í Grósku í dag. mbl.is/Eyþór

Kalla eftir endurskoðun á menntasjóði námsmanna 

Þrátt fyrir að fagna að einhverju leyti áformunum þá segir Alexandra að samtökin hefðu gjarnan vilja sjá endurskoðun á Menntasjóði námsmanna sem forgangsmál í ráðuneytinu, enda ekki hægt að starfrækja háskóla án nemenda.

„Ef við getum ekki komið nemendum í gegnum námið, þá missir það eiginlega marks að fjármagna háskólana. Af því að við getum ekki haft starfandi háskóla án nemenda og þar sem þessar tillögur gera ekki ráð fyrir að nemendur þurfi að vinna með námi, sem er svo sannarlega staðan, þá hefðum við vilja sjá þessa endurskoðun.“

Rakel Anna Boulter, forseti Stúdentaráðs Háskóla íslands, tekur undir áherslur Alexöndru um endurskoðun á Menntasjóði námsmanna. Nú liggur fyrir lögboðin endurskoðun á kerfinu og verður hún til umræðu á haustþingi Landssamtaka íslenskra stúdenta, en Rakel segir að ekki hafi átt sér stað nægt samráð við ráðuneytið um sjóðinn. 

„Við viljum heyra talað meira um það svo við endum ekki með svakalega gott háskólakerfi, sem einungis er aðgengilegt þeim sem eru efnaðastir hér á landi, það væri agalega sorgleg niðurstaða,“ segir Rakel sem fagnar því að fjármagnskerfið sé í endurskoðun, en leggur jafnframt áherslu á að stuðningskerfið verði bætt. 

Ekki svigrúm til að þróa kennslu

Meðal boðaðra breytinga á fjármagnskerfinu er að reikniflokkum þess verður fækkað úr fimmtán í fjóra. Alexandra segir það stóra breytingu sem vert sé að staldra við enda meirihluti námsgreina í sama flokki. 

Til útskýringar verður námsleiðum skólanna skipt í fjóra reikniflokka í stað fimmtán í núverandi kerfi, en reikniflokkunum fylgir fjármagn í samræmi við það hvernig kennsluaðferðir eru í hverri námsleið. 

Í stærsta flokknum eru félags-, hug- og menntavísindi auk aðfararnáms, en í þeim flokki eru 41% nemenda. Námsleiðin er skilgreind sem fyrirlestrardrifin og hefur Alexandra áhyggjur af því að ekki sé gert ráð fyrir þróun í kennsluháttum. 

„Þrátt fyrir að margar námsleiðir séu kenndar í fyrirlestrar formi þá þýðir það ekki að það sé það sem við viljum stefna að. Þegar þú ert að fjármagna stærsta reikniflokkinn með tilliti til þess að það eigi að kenna með fyrirlestrardregnu námsfyrirkomulagi þá er eflaust ekkert svigrúm til að koma með nýjungar og þróa kennsluna á annan veg.“

mbl.is