Inga: Hvað er gert svo fólk deyi ekki á biðlista?

Inga Sæland, formaður flokks Fólksins.
Inga Sæland, formaður flokks Fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Núna á síðasta ári eru 12 einstaklingar með fíknivanda dánir ótímabærum dauða á meðan þeir bíða á biðlista eftir hjálp vegna veikinda sinna,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, á Alþingi í dag.

Inga greindi í óundirbúnum fyrirspurnartíma frá slæmu ástandi í málefnum fólks sem glími við fíknisjúkdóma. Spurði hún þá Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hvað stjórnvöld væru að gera „núna í dag“ til þess að takast á við vandann.

Nefndi hún nýjasta dauðsfallið, þegar ung móðir út­skrifaðist af Vogi um mánaðamótin og þar sem ekki hafi verið pláss fyr­ir hana á Vík í meðferð eft­ir af­vötn­un­ina þurfti hún að bíða í tíu daga til að halda áfram með meðferðina. Hún lést þremur dögum síðar.

Meðferðarúr­ræðið á Vogi er opið all­an árs­ins hring en loka þarf göngu­deild­um SÁÁ og meðferðar­stöðinni Vík, nán­ast ár hvert, yfir sum­ar­tím­ann.

„Hvað erum við að gera í dag til að koma í veg fyrir það að á morgun deyi einhver á biðlista?“ spurði Inga.

Stendur alltaf til boða að halda Vík opinni

Inga Sæland hafði fullyrt að í nýjum fjárlögum hafi verið dregið úr framlögum til heilbrigðisþjónustu. Willum sagði í svari sínu að þær fullyrðingar væru rangar. „Við erum ekki að draga úr framlögum til SÁÁ við kaup á þessari þjónustu.“ 

Heilbrigðisráðherra sagði að framlög ríkis til SÁÁ séu tæpir 1,4 milljarðar króna. Þar af séu aftur á móti 120 milljónir króna tímabundið fjármagn til rekstrar, sem fellur niður í nýjum fjarlögum. Aftur á móti sé lokun á Vík yfir sumarið sjálfstæð ákvörðun SÁÁ en ekki stjórnvalda.

„Þessi lokun á Vík, sem er eftirmeðferð, er bara sjálfstæð ákvörðun SÁÁ og það er enginn í ráðuneytinu spurður að því. Það er innan við 1% af ríkisfjármagni að halda því opnu og það samtal stendur alltaf til boða að halda því opnu og hefur verið það síðastliðin 10 ár,“ sagði Willum. 

„Við eigum ekki að taka þetta viðkvæma samhengi sem er þarna á milli, með þennan erfiða sjúkdóm, og segja að með einhverjum óræðum hætti sé þessi lokun að valda því að niður fer á öðru sviði.“

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is