Innbrotsþjófurinn var að rista sér brauð

Innbrotsþjófurinn var að rista sér brauð þegar eiganda bar að …
Innbrotsþjófurinn var að rista sér brauð þegar eiganda bar að garði. Mynd/aðsend

Forstjóri fyrirtækis í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði lenti í kröppum dansi ásamt bróður sínum þegar þeir komu til vinnu í morgun. Mættu þeir þar óboðnum gesti sem hafði hreiðrað um sig á kaffistofu fyrirtækisins og var að rista sér brauðsneið.

Hafði innbrotsþjófurinn þá tekið saman nokkurt magn af dóti sem hann ætlaði að öllum líkindum að hafa með sér á brott. Forstjórinn vill ekki láta nafn síns getið en tjáði mbl.is að bróðir hans hafi áður starfað við dyravörslu. Sá hafði þjófinn undir og hélt honum þar til lögregla mætti á staðinn. 

Aðkoman ógeðsleg

„Þegar við komum í morgun gátum við ekki opnað hurðina því búið var að eiga við hana. Ég fór því inn að aftanverðu og heyrði þrusk á efri hæðinni og þegar ég kom þangað þá var ókunnur maður að rista sér brauð,“ segir forstjórinn og hlær við. 

Maðurinn hafði brotist inn að framanverðu húsinu.
Maðurinn hafði brotist inn að framanverðu húsinu.

Svo vildi til að þennan morguninn hafði hann komið til vinnu á sama tíma og bróðir sinn. „Ég kallaði á bróður minn þegar ég sá manninn.  Aðkoman var ógeðsleg. Hvarvetna var búið að henda pappírum og drasli á gólfið og ein rúða var brotin,“ segir forstjórinn.

Í vinnugalla með lakkgrímu  

Hann segir að það hafi gengið heldur illa hjá manninum að rista brauðsneiðarnar því nokkrar sneiðar lágu brunnar á borðinu. „Það segir sitt um ástandið á manninum,“ segir forstjórinn. 

„Hann var kominn í vinnugalla, með lakkgrímu og því merktur fyrirtækinu í bak og fyrir. Ég spurði hvern andskotann hann væri að gera hérna! Hann kvaðst vera mættur til vinnu,“ segir forstjórinn kíminn. 

Að sögn forstjórans hugðist þjófurinn svo ráðast á bróður hans en hafði ekki erindi sem erfiði þar sem bróðirinn hafði hann undir og hélt manninum. „Lögreglan kom svo til að handjárna hann og þá reyndi hann að sparka í bróður minn,“ segir forstjórinn. 

Innbrotið var í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði.
Innbrotið var í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Setti ónýta rafgeyma í tösku

Hann viðurkennir að sér hafi verið brugðið en sá jafnframt spaugilegu hliðarnar á þessu líka. „Þetta ku vera góðkunningi lögreglunnar. Honum brá ekkert endilega við að sjá okkur. Ástandið var slíkt á manninum. Honum fannst þetta ekkert tiltökumál,“ segir forstjórinn. 

Að sögn hans hafði maðurinn þegar tekið saman verðmæti í tösku og kassa sem útlit er fyrir að hann hafi ætlað að hafa með sér á brott. 

„Hann hafði fjarlægt talsverð verðmæti úr töskunni en setti þess í stað ónýta rafgeyma þangað. Skrúfvélar og tölvur voru enn óhreyfðar. Ég held hann hafi ekkert vitað hvað hann var að gera,“ segir forstjórinn. 

mbl.is