Leigði hótelherbergi og reyndi að tæla stúlku

Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir tilraun til nauðgunar og kynferðisbrots gegn barni með því að í tvígang í september árið 2021 sett sig í samband við stúlku sem var undir lögaldri og mælt sér mót við hana. Segir í ákærunni að hann hafi mælt sér mót við stúlkuna í því augnamiði að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök, en í þeim tilgangi fór hann frá Reykjavík og út á land þar sem hann leigði hótelherbergi.

Til vara við kröfu ákæruvaldsins um að maðurinn verði dæmdur fyrir tilraun til nauðgunar og kynferðisbrots gegn barni er hann ákærður fyrir nettælingu.

Maðurinn er jafnframt ákærður fyrir að hafa aflað sér þriggja falsaðra 5.000 kr. seðla í því skyni að koma þeim í umferð sem ósviknum, en seðlarnir fundust við leit í bakpoka hans þegar hann var handtekinn.

Fyrir hönd stúlkunnar er farið fram á 1,5 milljónir í miskabætur.

mbl.is