Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Morgunblaðið að það sé ekki rétt að hann og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hafi rætt um möguleikann á tilraunum á föngum með efninu sílósíbín, en það er virka efnið í ofskynjunarsveppum.
Hann segir þó að þeir hafi hist þegar hann var dómsmálaráðherra til að ræða möguleikann á því að Íslensk erfðagreining myndi aðstoða lögregluna við að bera kennsl á líkamsparta og önnur lífsýni.
Kári sagði á laugardaginn að þáverandi dómsmálaráðherra hefði rætt í löngu máli um löngun sína til að gera tilraunir á föngum.
„Við ræddum það á sínum tíma hvort sílósíbín væri mögulegt meðferðarúrræði til að hjálpa þeim sem hafa lent í áföllum og hvort það gæti gagnast mínum skjólstæðingum, sem þáverandi dómsmálaráðherra, sem væru annars vegar fangar og mögulega fólk sem hefur lent í ofbeldisglæpum, og lögreglumenn til að mynda sem hafa lent í mjög erfiðum atvikum í sínum störfum,“ segir Jón.
Hann tekur fram að hann hafi rætt málið við Kára í kjölfar ráðstefnu sem var haldin hér á landi í janúar um notkun hugvíkkandi efna í lækningaskyni og vegna þess að Kári hafði áður tjáð sig um efnið í viðtali.
Meira í Morgunblaðinu í dag, mánudag.