Sparnaður fyrir ríkið að halda flugleiðinni opinni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi. mbl.is/Óttar

„Það væri bara algjörlega afleitt,“ svarar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi, spurður um yfirvofandi niðurfellingu á áætlunarflugi til Húsavíkur um næstu mánaðarmót.

„Ég held að það séu allar ástæður til að grípa þarna inn í,“ segir Sigmundur en byggðaráð Norðurþings hefur lagt til lausnar sem fæli í sér 15 milljón króna stuðning ríkisins á mánuði í átta mánuði til að brúa bilið þar til hægt verði að halda fluginu áfram án utanaðkomandi stuðnings. Sigmundur segist telja að tap ríkisins yrði miklu meira ef fluginu yrði hætt en að styðja við rekstur þess.

„Kostnaðurinn er ekki mikill miðað við margt sem að ríkið hefur eytt í á síðustu misserum, til dæmis bara brota, brota, brot af því sem að er áformað að setja í borgarlínuna til að þrengja að umferðinni á höfuðborgarsvæðinu.“

Mikilvægt fyrir uppbyggingu

Sigmundur segir gríðarlega mikilvægt að viðhalda góðum samgöngum til Húsavíkur fyrir íbúa svæðisins sem að þurfi að leita sér til dæmis læknisþjónustu og annarrar þjónustu í höfuðborginni. „En líka vegna þeirrar miklu uppbyggingar sem er búin að eiga sér stað þarna í atvinnulífinu og stefnt er á að haldi áfram. Þetta getur verulega dregið úr kostum þess fyrir fyrirtæki að byggja þarna upp.“

Hann telur því aðkomu ríkisins í þessu tilviki fullkomlega réttlætanlega. „Það [ríkið] hefur haft aðkomu í ýmsum samgöngumálum, í flugi og almenningssamgöngum,“ segir Sigmundur og ítrekar að hann telji að um sparnað væri að ræða fyrir ríkið að halda flugleiðinni opinni.

mbl.is