Styrking krónu á eftir að koma fram í vöruverði

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fundaði á dögunum með forsvarsmönnum dagvöruverslana. Tilefnið var að kanna hvenær neytendur ættu von á því að styrking krónunnar fari að skila sér í lægra vöruverði á innfluttum aðföngum.

Þá er að sögn Lilju verið að reyna að komast að því í samvinnu við Neytendastofu hvernig við komum út í samanburði við önnur ríki.

Krónan hefur styrkst um rúm 10% á síðustu 12 mánuðum.

Hitti forsvarsmenn dagvöruverslana

Ráðherra hitti forsvarsmenn frá Högum, Festi og Samkaupum auk þess að funda með Hagstofunni. Lilja segir í samtali við mbl.is að fundirnir með dagvöruverslununum hafi bæði verið mjög góðir og fróðlegir. Dagvöruverslanirnar hafi gefið sér gott yfirlit verðuppbyggingar á dagvöru.

„Það virðist vera sem þessi styrking krónunnar eigi eftir að koma fram í meira mæli og þá ættu einhverjar vörur að lækka,“ segir Lilja.

Segist ráðherra þá hafa komist að því á fundunum að staða birgja á Íslandi sé sterk og miklar hækkanir hafi verið þar. Framlegð þar sé há í alþjóðlegum samanburði og um 80% af verði matvöru verði til annars staðar en hjá smásölunni þar sem framlegð hefur aftur hlutfallslega verið að lækka.

Lilja segir kjarasamningana frá síðasta ári hafa reynst versluninni þungir og þá standi smávöruverslun frammi fyrir hækkun á innlendri vöru, háum vöxtum og sífellt hærri rekstrarkostnaði.

Finna allar leiðir

Segir hún næstu skref verða að skoða heildsölumarkaðinn og framlegð þar í samanburði við Norðurlöndin.

„Tilgangurinn er að finna allar leiðir sem við getum til að gengisstyrkingin skili sér og að finna hvort það sé einhvers staðar hægt að gera betur í aðfangakeðjunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka