„Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, telur óráðlegt að ríkisstjórnin leyfi flugi til Húsavíkur að leggjast af áður en að ákvörðun verður tekin hvort ríkið eigi að stíga inn í og koma áætlunarflugi aftur á fótinn, eður ei.

Sigmundur sagði beint flug bæði skipta máli fyrir uppbyggingu svæðisins en ekki síður fyrir íbúanna, sem þurfa til að mynda margir hverjir að sækja heilbrigðisþjónustu í Reykjavík.

Sagði hann ýmis rök réttlæta það að ríkið myndi stíga inn í og koma þannig í veg fyrir tjón.

„Til að koma í veg fyrir í raun meira efnahagstjón sem ríkið ella sæti uppi með. Því það er alltaf dýrara að bæta tjónið en að koma í veg fyrir það,“ sagði Sigmundur í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Sagði hann byggðarráð Norðurþings hafa lagt til lausn um hvernig megi á átta mánuðum, með 15 milljóna króna mánaðarlegum ríkisstuðningi, bjarga fluginu og gera það sjálfbært á nýjan leik.

„Þar með yrði flugið áfram liður í uppbyggingu, vexti og viðgangi verðmætasköpunar og framleiðslu á Húsavík og í nærsveitum og gæti áfram nýst íbúum svæðisins sem þurfa að leita sér þjónustu á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Sigmundur og spurði: „Telur hæsvirtur fjármálaráðherra ekki tilefni til að bjarga beinu flugi til og frá Húsavíkur?“

Málið til skoðunar 

Bjarni benti á að flugfélagið Ernir hefði haldið úti áætlunarflugi til Húsavíkur í þónokkur ár án ríkisstuðnings. 

„Við höfum svona verið að vinna með þá meginreglu að þar sem að flugleiðir geta staðið undir sér, að þá sé ekki réttlætanlegt að vera með mikinn beinan ríkisstuðning. En það eru blikur á lofti, nú þegar flugfélagið hefur boðað að flugleiðin beri sig ekki lengur. Og eflaust hefur flugfélagið orðið fyrir miklum búhnykk þegar heimsfaraldur reið hér yfir og reyndar er það ekkib bara til Húsavíkur heldur líka til Vestmannaeyja, sem að flugsamgöngur eru að raskast.

Það er bara mín skoðun varðandi þessa mikilvægu samgönguæð sem flugið er, að það sé að sjálfsögðu eðlilegt að tryggja áframhaldandi loftbrú til þeirra svæða þar sem að er það sem maður getur kallað markaðsbrest – þar sem markaðurinn rís ekki undir því að tryggja öruggar flugsamgöngur allt árið. Það erum við reyndar að gera í mörgum tilvikum, og það hlýtur að koma til skoðunar þarna,“ sagði Bjarni.

Hann tók fram að málefnið heyrði ekki beint undir fjármálaráðuneytið en að því er hann best vissi væri það þannig að flugið þyrfti að hafa legið niðri í ákveðinn tíma áður en það kæmi til útboðs á vegum ríkisins til þess að styðja við flugleiðina. 

„Þannig vænti ég þess að innanríkisráðuneytið sé með málið til skoðunar.“

Þurfi að bregðast við strax

Sigmundur Davíð sagði tímann vera nauman og taldi hann óráðlegt fyrir ríkisstjórnina að leyfa fluginu að leggjast af „til að geta síðan metið hvort að það sé ástæða til þess að reyna að koma því í gang aftur.“

Sigmundur ítrekar þá að það sé „miklu ódýrara að koma í veg fyrir tjón heldur en að taka á tjóninu þegar að það er orðið.“ Og alls ekkert víst að það tækist að koma fluginu aftur af stað.“

Spurði hann þá aftur hvort það þyrfti ekki að bregðast við strax. „Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið.“

Bjarni endurtók þá að málefnið heyrði ekki undir hans ráðuneyti en taldi þó nokkuð víst að Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra væri umhugað um tíðar og öruggar samgöngur.

mbl.is