Þór til taks á Austfjörðum

Varðskipið Þór verður til taks vegna veðurviðvaranna á Austfjörðum í …
Varðskipið Þór verður til taks vegna veðurviðvaranna á Austfjörðum í kvöld og á morgun. Mynd úr safni. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Varðskipið Þór tekur sér stöðu á Seyðisfirði vegna veðurviðvarana á Austfjörðum. 

„Við miðum oft við það að stilla varðskipunum okkar á þeim stöðum þar sem hætta er á að veðrið sé sem verst og í því ljósi ætlum við að vera með varðskipið Þór inni á Seyðisfirði til taks,“ segir Ásgeir Erlendsson, samskiptastjóri Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.

Var þegar fyrir austan

Almannavarnir ríkislögreglustjóra lýstu yfir óvissustigi í dag og tekur hættustig við eftir klukkan 18. Ástæða viðbúnaðarins er úrhellisrigning sem mun færast í aukana á miðnætti í nótt en hætta er á auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum ásamt flóðum og skriðuföllum.

Ásgeir segir gott samtal ávalt ríkja á milli almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og því sé Gæslan boðin og búin til að vera til taks ef þörf sé á aðstoð þeirra. Svo heppilega vilji til að skipið hafi einmitt verið fyrir austan og því verði skipið komið á Seyðisfjörð innan skamms. 

mbl.is