Undanþágulyf eru „vaxandi vandamál“

Hægt er að draga úr fjölda umsókna um undanþágulyf með …
Hægt er að draga úr fjölda umsókna um undanþágulyf með því að setja þau lyf sem oftast er sótt um undanþágu fyrir á markað. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Undanþágulyf eru vaxandi vandamál hér á landi að sögn Rúnu Hauksdóttur Hvannberg, forstjóra Lyfjastofnunar. Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins birtist fræðigrein þar sem umfang undanþágulyfja á Íslandi 2020 til 2021 var kannað.

Rúna nefnir að ávísunum undanþágulyfja hafi fjölgað enn meira eftir árið 2021, meðal annars vegna lyfjaskorts í Evrópu. Lyfjaskortur var aðeins ástæða undanþágulyfja í 8,8% tilvika árið 2020 og 7,6% tilvika árið 2021.

Sömu lyf ár eftir ár

Rúna segir ljóst að nú sé prósentan mun hærri, en mikil vinna fylgir undanþágulyfjum meðal annars hjá Lyfjastofnun og Landspítala.

Hún nefnir að vandamálið sé ekki einstakt á Íslandi, „en út af stærð markaðarins erum við með óvenjulega mörg lyf í undanþágukerfinu.“

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna þó fram á að mörg þeirra undanþágulyfja sem mest er ávísað eru þau sömu ár eftir ár.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg. Ljósmynd/Lyfjastofnun

Óskandi ef fleiri lyf væru markaðssett

Rúna segir að það væri óskandi að fleiri lyf væru markaðssett á Íslandi, en mörg lyfjanna hafa markaðsleyfi hér á landi en eru ekki markaðssett. Rúna segir markaðsleyfishafa meðal annars setja fyrir sig verð og áletranir.

„Lyfjastofnun hefur beitt sér fyrir því að veita afslætti af ýmsum gjöldum og undanþágur sem hvata til þess að fá hér lyf markaðssett.“

Vaxandi vandamál

Þegar lyf eru markaðssett hérlendis fylgir því ákveðin skylda upp á birgðahald og fleira og það veitir öryggi að sögn Rúnu.

Hún segir að lyfjaskortur í heiminum hafi ekki unnið með hvatningu Lyfjastofnunar. Rúna nefnir að stofnunin fundi að minnsta kosti einu sinni á ári með öllum markaðsleyfishöfum.

„Þetta er vaxandi vandamál og við erum að reyna að bregðast við því,“ segir Rúna og nefnir að í haust ætli Lyfjastofnun að fara af stað með skoðanakönnun að norskri fyrirmynd hjá markaðsleyfishöfum um hvað það sé sem komi í veg fyrir að lyf séu markaðssett.

Meira um málið í Morgunblaðinu í dag, mánudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: