69% studdu ekki aðgerðir hvalveiðimótmælenda

Mótmælandi í mastri hvalveiðiskipts Hvals hf.
Mótmælandi í mastri hvalveiðiskipts Hvals hf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihluti aðspurðra segist ekki hafa stutt aðgerðir mótmælenda sem hlekkjuðu sig við möstur tveggja skipa Hvals hf. í Reykjavíkurhöfn í byrjun mánaðarins.

Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, en 31% sögðust hafa stutt aðgerðirnar en 69% að þau styddu ekki aðgerðirnar. Marktækur munur er á afstöðu fólks eftir aldri, búsetu, menntun og stjórnmálaskoðun.

Talsvert minni andstaða var við mótmælin í hópi yngra fólks, en 43% fólks yngra en 40 ára sögðust styðja aðgerðirnar. Þegar horft er til aldurshópsins 60+ var stuðningurinn hins vegar aðeins 18%.

Mun fleiri íbúar höfuðborgarsvæðisins voru jákvæðir gagnvart mótmælunum, en 36% þeirra sögðust styðja aðgerðirnar á meðan 21% íbúa landsbyggðarinnar sögðust þeirrar skoðunar. Þá var stuðningur við þær meiri eftir því sem menntun jókst, en 22% þeirra sem höfðu mest klárað grunnskólapróf studdu aðgerðirnar, 30% þeirra sem höfðu mest klárað framhaldsskólapróf, en 41% hjá þeim sem höfðu lokið háskólaprófi.

Hvalveiðimótmæli fyrir framan hvalveiðibátana í Reykjavíkurhöfn.
Hvalveiðimótmæli fyrir framan hvalveiðibátana í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Eyþór

Þegar horft er til stjórnmálaskoðana fólks sést að stuðningurinn við aðgerðirnar var mestur á meðal kjósenda Pírata, en 75% þeirra sögðust styðja aðgerðirnar. Stuðningsfólk Sósíalistaflokks Íslands var líka líklegt til að styðja þær,eða 71% aðspurðra og 57% kjósenda Samfylkingarinnar. Minna en helmingur stuðningsfólks annarra stjórnmálaflokka studdi aðgerðirnar. Fæstir voru þeir hjá Miðflokknum, eða 1% og hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem 5% studdu aðgerðirnar. Þá studdu 7% stuðningsmanna Framsóknarflokksins aðgerðirnar.

mbl.is