„Það var í raun og veru allt með kyrrum kjörum á Austurlandi, það bara rigndi,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. Hann segir hins vegar hafa verið í nógu að snúast á Siglufirði, þar sem skyndilegt hvassviðri reið yfir.
„Þetta byrjaði rétt fyrir fjögur í gær, þá var tilkynnt um trampólín sem væri að hefja sig til flugs og okkar fólk á Siglufirði fór í það verkefni. Síðan þegar leið á kvöldið þá fjölgaði verkefnum,“ segir Jón Þór. Hann segir björgunarfólk hafa verið að störfum til klukkan fimm í morgun.
Hann segir toppnum hafa verið náð þegar þak fauk af skemmu og olli tjóni á nærliggjandi húsi, en að sögn Jóns Þórs var engin inni í skemmunni þegar þakið fauk.
Spurður hvort komið hafi á óvart að verkefnin hafi verið á Siglufirði, en ekki á Austfjörðum þar sem hættustigi almannavarna var lýst yfir í gærkvöldi, kveðst Jón Þór ekki vita hvort það hafi komið heimamönnum á óvart, en að vissulega hafi engar viðvaranir verið í gildi á svæðinu.
Björgunarsveitir séu hins vegar viðbúnar frekari verkefnum í dag enda sé versta úrhellinu á Austfjörðum spáð í dag og fram að miðnætti.