Funda í vikunni vegna Húsavíkurflugs

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Hákon Pálsson

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra er vongóður um að farsæl lausn náist hvað varðar flugleiðina á milli Húsavíkur og Reykjavíkur en flugfélagið Ernir hefur ákveðið að hætta áætlunarflugi til Húsavíkur um næstu mánaðamót.

„Það er verið að skoða þetta mál mjög grannt í ráðuneytinu og hvaða leiðir þarf að skoða. Við vitum alveg að þegar við förum inn í ríkisstyrkt umhverfi þá þarf yfirleitt útboð og aðdraganda að því.

Skoða með jákvæðum augum

Við gripum til þess að bjarga ákveðnu neyðarflugi yfir vetrarmánuðina í Vestmannaeyjum síðastliðin tvö ár sem hefur gengið ágætlega. Við erum bara að skoða þetta með jákvæðum augum,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.

„Mér skilst að flugið eigi að leggjast af um næstu mánaðamót en ég mun eiga fundi með mínu fólki í vikunni,“ sagði Sigurður enn fremur.

mbl.is