Hreyfing í hlíðinni en ekki rýmt að sinni

Veðurstofan fylgist grannt með málum á Seyðisfirði.
Veðurstofan fylgist grannt með málum á Seyðisfirði. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Mælitæki Veðurstofunnar hafa greint hreyfingar í hlíðinni ofan við Seyðisfjörð í dag. Þrátt fyrir það þykir ekki ástæða til að grípa til frekari ráðstafana að sinni að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar yfirlögregluþjóns á Austurlandi.

„Þegar mælastaða var skoðuð uppi í hlíðinni, borholur og annað þá var það mat Veðurstofunnar að ekki þyrfti að grípa til frekari ráðstafana að sinni,“ segir Kristján Ólafur.

Ekki áður vart við hreyfingu á þessum stað

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar sem birtist rétt í þessu kemur fram að hreyfing hafi greinst ofan byggðar.  Hún hafi „greinst við Hæðarlæk og ofan Neðri-Botna við Dagmálalæk. Þessar hreyfingar eru enn sem komið er litlar en hreyfingin ofan við Dagmálalæk sem nemur nokkrum mm er eilítið meiri.

Þegar vel er að gáð má sjá vatnsfarveg víða í …
Þegar vel er að gáð má sjá vatnsfarveg víða í hlíðinni innan Seyðisfjarðar eftir miklar rigningar undanfarna daga. Ljósmynd/lögreglan á Austurlandi.

Ekki er vitað nákvæmlega í hvernig jarðlögum hreyfingin þar er en hún virðist vera í eða á milli kletta á þessu svæði. Ekki hefur áður orðið vart við hreyfingu á þessum stað. Skriður þarna gætu fallið niður í Dagmálalæk og valdið hlaupi eða skriðum niður farveg lækjarins,“ segir á vef Veðurstofunnar.  

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.
Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Ekki ástæða til rýmingar

„En mat Veðurstofu er það að ekki sé ástæða til frekari rýmingar þrátt fyrir þetta. Vel verður hins vegar fylgst með og við brugðist ef þurfa þykir,“ segir Kristján.

Eins og fram kom í gær voru rýmd hús á Strand­ar­veg­i og við Hafn­ar­götu á Seyðisfirði. Búist er við því að verulega muni draga úr rigningu í nótt. 

mbl.is