Fjarðabyggð mun ekki banna heimagistingu á Stöðvarfirði þátt fyrir umleitanir íbúasamtaka í bænum þess efnis. Þetta fengu íbúasamtökin í skriflegu svari við fyrirspurn þar sem óskað var eftir banni við heimagistingu nema fólk hefði heimilisfesti á svæðinu allt árið um kring.
Höfðu íbúasamtökin kvartað undan því að á sama tíma og eftirspurn væri eftir húsnæði í bænum stæðu fjölmörg hús tóm stóran hluta úr árinu vegna heimagistingar.
Íbúasamtökin sendu inn eftirfarandi fyrirspurn:
„Hver er afstaða Fjarðabyggðar til beiðna um breytingar á bæði íbúðar-og atvinnuhúsnæðis í gistirými hugsuð til útleigu til skemmri tíma ? Getur sveitarfélagið hugsað sér að setja bann á slíka starfsemi nema með þeim kvöðum að einnig er búið í húsnæðinu til lengri tíma?“
Í svari Fjarðabyggðar segir að lögbundið athafna- og ákvarðanafrelsi einstaklinga sé bundið í stjórnarskrá og lögum.
Eins segir að sveitafélagið eigi ekki gott með að stýra beiðnum eða erindum fasteignaeiganda um breytingar á íbúða- atvinnuhúsnæðis í gistirými nema þá með skilgreiningum í aðalskipulagi sveitarfélagsins.
Þar segir að ekki verði veitt frekari leyfi í flokki 2, 3, og 4 samkvæmt reglum um rekstrarleyfi gististaða. Hins vegar þurfi ekki sérstakt leyfi frá sveitafélaginu vegna gistingar í flokki 1 þ.e. heimagistingu. Því geti sveitarfélagið ekki bannað gistinguna.
Samkvæmt flokki 1 getur fólk leigt út fasteign í heimagistingu í allt að 90 daga eða að upphæð allt að tveggja milljóna króna á ári.