Lykilatriði að kerfið verði vel fjármagnað

Jón Atli segir nýtt reiknilíkan fagnaðarefni.
Jón Atli segir nýtt reiknilíkan fagnaðarefni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rektor Háskóla Íslands segir nýtt reiknilíkan sem nota á við út­hlut­un fjár­magns til há­skóla fagnaðarefni, en lykilatriði að það verði vel fjármagnað. Hann segir stóru breytinguna felast í loknum einingum í stað þreyttra og telur mikilvægt að áframhaldandi vinna verði unnin tiltölulega hratt. 

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, há­skóla-, iðnaðar-, og ný­sköp­un­ar­ráðherra, boðaði í gær sókn í há­skóla­mál­um með um­fangs­mikl­um kerf­is­breyt­ing­um á út­hlut­un fjár­magns til há­skóla. Hún seg­ir breyt­ing­una for­sendu þess að ís­lensk­ir há­skól­ar geti skarað fram úr og legg­ur því áherslu á að breyt­ing­in verði keyrð sam­hliða fjár­lög­um fyr­ir árið 2024 „til þess að breyt­ing­arn­ar verði ein­hvern tím­ann að veru­leika“.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/09/18/aslaug_arna_bodar_sokn_i_haskolamalum/

Nýtt reiknilíkan fagnaðarefni 

„Við höfum lengi kallað eftir því að fá nýtt reiknilíkan og nú er það að fæðast, sem er fagnaðarefni. Næstu skref eru að þróa það áfram og við hlökkum til að vinna að því með ráðuneytinu,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. 

Undanfarin ár hefur átt sér stað vinna í átt að nýju reiknilíkani, segir Jón Atli og nefnir til að mynda skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út árið 2007, grænbók sem var unnin í samstarfi við háskólana árið 2019 og fleira. 

Jón Atli fagnar að margt að því sem boðað er með nýju reiknilíkani sé tekið úr þeirri vinnu sem hefur átt sér stað undanfarin ár og nefnir sem dæmi skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út árið 2007, grænbók sem var unnin í samstarfi við háskólana árið 2019 og fleira. 

„Nú fer reiknilíkanið í rýningu og samráð og við munum vinna með ráðuneytinu að því að rýna þetta vel þannig að þetta sé eins gott og hægt er.“  

„Mikilvægt að vinna þetta tiltölulega hratt“

Leggst vel í ykkur að láta á þetta reyna, til að koma þessu af stað?  

„Ég tek undir það sjónarmið ráðherra að það sé mikilvægt að koma þessu af stað. Þetta er þannig reiknilíkan að það eru margir stikar í því sem má fínstilla. Það eru þessir þrír meginþættir, kennsla, rannsóknir og samfélagsleg áhrif og það má alltaf deila um hvernig þetta skiptist upp. En ég held að til þess að koma þessu af stað og fínstilla síðar þá sé mikilvægt að vinna þetta tiltölulega hratt“. 

Hvað varðar reikniflokkana fjóra, sem áður voru 15, þá segir Jón Atli þá í samræmi við fyrirkomulag Norðurlandanna. Hann segir að deila megi um hvað lendir hvar og hver hlutföllin eru í fjárframlögum á milli þeirra, en bendir á að þarna sé verið að horfa á erlenda fyrirmyndir varðandi hvernig þetta skiptist. 

„Kennsluhættir eru vissulega að breytast á mismunandi stöðum og það er mikilvægt að námsleiðir séu fjármagnaðar á svipaðan hátt, ef kennsluaðferðir eru svipaðar. Innan Hí höfum við til að mynda blandað reikniflokk eitt saman við reikniflokk tvö einfaldlega vegna þess að hann var alltof lágur,““ segir Jón Atli og bætir við:

„Það er annar gríðarlega mikilvægur þáttur í þessu, sem Áslaug hefur talað um og það er að efla fjármögnun háskólastigsins. Það þarf að gera það og með öflugri fjármögnun, sem leiðir væntanlega til þess að reikniflokkarnir verða betur fjármagnaðir og þá erum við í betri stöðu.“

Stóra breytingin loknar einingar í stað þreyttra

Jón Atli segir stóru breytinguna felast í loknum einingum í stað þreyttra eininga. Hann segir mikilvægt að laga sig að því hvernig tekist verður á við þessa breytingu, því þó vissulega megi leggja áherslu á að fá inn fleiri nemendur, þá mun það hafa áhrif á skólana að fá ekki fjármagn með þeim sem ekki klára sínar einingar. 

„Það hefur verið lögð áhersla á það, til að mynda í opnum háskóla eins og Háskóla Íslands, að flestir þeir sem uppfylla lágmarkskröfur geta komið inn. En ef það er í stórum stíl þannig að fólk klárar ekki einingar, þá er ekkert fjármagn sem fylgir og það er náttúrulega eitthvað sem mun hafa áhrif.“

Næstu skref er rýnivinna og samráð með ráðuneytinu og kveðst Jón Atli spenntur fyrir þeirri vinnu.  

„Við viljum tryggja gott háskólakerfi sem er samkeppnishæft við erlent háskólakerfi og þá er náttúrulega mikilvægt að það sé vel fjármagnað, það er algjört lykilatriði.“

mbl.is