Sigurður neitaði sök fyrir dómi

Sigurður neitaði alfarið sök bæði fyrir hönd ákærða HK68 ehf., …
Sigurður neitaði alfarið sök bæði fyrir hönd ákærða HK68 ehf., sem framkvæmdastjóri félagsins og vegna sakarefna sem snúa að hans eigin persónu. mbl.is/Hákon

Sig­urður Gísli Björns­son, fyrrverandi eigandi og framkvæmdastjóri Sæmarks-Sjávarafurða,  neitaði sök fyrir héraðsdómi í dag í svokölluðu Sæmarks-skattamáli.

Sigurður mætti til þingfestingar með Þorstein Einarsson lögmann sér til fulltingis. Auk hans mætti annar meðákærði í málinu, en aðeins lögmaður þess þriðja.

Sigurður neitaði alfarið sök bæði fyrir hönd ákærða HK68 ehf. (áður Sæmark-Sjávarafurðir), sem framkvæmdastjóri félagsins og vegna sakarefna sem snúa að hans eigin persónu. Meðákærði í málinu neitaði þá einnig alfarið sök.

Kom meira en milljarði fyrir í aflandsfélögum

Verjendur áskildu sér rétt til að skila greinargerð og óskuðu þeir eftir átta vikna fresti til þess. Dómari ákvað í kjölfarið að fresta þinghaldi fram til 15. desember.

Sigurður var ákærður ásamt tveimur öðrum mönnum í stórfelldu skattalagabroti sem tengist rekstri fiskút­flutn­ings­fyr­ir­tæk­is­ins Sæ­marks-Sjáv­ar­af­urðum ehf. á ár­un­um 2010 til 2017.

Sig­urður er eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins en hann er ákærður fyr­ir að hafa kom­ist hjá því að greiða tæp­lega hálf­an millj­arð króna í skatta eft­ir að hafa tekið tæp­lega 1,1 millj­arð út úr rekstri fé­lags­ins og komið fyr­ir í af­l­ands­fé­lög­um sem hann átti.

Þá er hann einnig sagður hafa kom­ist hjá því að greiða sam­tals yfir 100 millj­ón­ir í skatta í tengsl­um við rekst­ur Sæ­marks með því að hafa van­fram­talið tekj­ur fé­lags­ins og launa­greiðslur starfs­manna upp á sam­tals 1,1 millj­arð og þar með kom­ist hjá því að  greiða 81,8 millj­ón­ir í trygg­inga­gjald.

Rangir og tilhæfulausir reikningar

Hinir mennirnir tveir eru ákræðir fyrir að hafa aðstoðað Sigurð Gísla við brot sín meðal annars með útgáfu rangra og tilhæfulausra sölureikninga

Þess er krafist að bæði Sigurður og hinir mennirnir tveir verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er krafist upptöku á jafnvirði rúmra 13 milljóna króna á bankareikningum Sæmarks-Sjávarafurða.

Ekki fyrsta málið tengt Sæmarki

Þetta er ekki fyrsta málið sem teng­ist Sæ­marki en árið 2019 var út­gerðarmaður dæmd­ur í tíu mánaða skil­orðsbundið fang­elsi og til að greiða 36 millj­ón­ir í sekt í tengsl­um við skatta­laga­brot og pen­ingaþvætti í tengsl­um við út­gáfu rangra reikn­inga á hend­ur Sæ­marki í þeim til­gangi að taka fjár­muni úr fé­lag­inu í eig­in þágu.

mbl.is