Skriða féll utan þéttbýlis og rýmingum ekki aflétt

Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við gerum ráð fyrir að rýmingar sem hafa verið framkvæmdar muni halda í dag,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, en ákveðið var að rýma hús á Seyðisfirði í gær vegna úrkomuspár.

Mikið úrhelli er í landshlutanum og var hættustigi almannavarna lýst yfir á Austfjörðum í gær, en óvissustig er í gildi á öllu Austurlandinu.

Gert er ráð fyrir að dragi úr úrkomu um miðnætti í nótt. 

Skriðufall utan þéttbýlis

Kristján segir að gengið hafi vel fram til þessa og að lögreglu hafi ekki verið tilkynnt um tjón vegna vatnavaxta. Veðurstofa Íslands og viðbragðsaðilar haldi þó áfram að fylgjast vel með, enda sé úrhellisspá fram á miðnætti í kvöld.

Hann segir vitað til þess að skriða hafi orðið í Námum í Borgartungu fyrir utan Seyðisfjörð. Svæðið sé utan þéttbýlis og sé í þokkabót inni á lokuðu svæði vegna rýminga. 

„En það sést úr fjarlægð að það hefur fallið skriða,“ segir Kristján.

Spurður hvernig staðan sé á Eskifirði segir Kristján útlit fyrir að árfarvegir taki vel við úrkomunni og því ekki gert ráð fyrir sérstökum viðbúnaði þar, þó að sjálfsögðu sé áfram fylgst vel með.

mbl.is