Þak fauk af húsi á Siglufirði

Tjón varð á nærliggjandi húsum og mannvirkjum og þurfti að …
Tjón varð á nærliggjandi húsum og mannvirkjum og þurfti að rýma eitt hús. Lokað er fyrir umferð um Aðalgötu frá Vetrarbraut þangað til búið er að tryggja öryggi á svæðinu. Ljósmynd/Lögreglan

Þak fauk af húsi á Aðalgötu á Siglufirði í vindhviðu í gærkvöldi. Þakið fór af að stórum hluta með þeim afleiðingum að brak dreifðist um stórt svæði, að því er segir í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Tjón varð á nærliggjandi húsum og mannvirkjum og þurfti að rýma eitt hús. Lokað er fyrir umferð um Aðalgötu frá Vetrarbraut þangað til búið er að tryggja öryggi á svæðinu.

Að sögn lögreglu er einnig lokað fyrir umferð um bifreiðastæði við skrifstofu Ramma á hafnarsvæðinu.

Gríðarlegir vindstrengir

Vindur hefur verið mikill á Siglufirði í gær og í nótt, en lögregla lýsir vindstrengjunum sem gríðarlegum. Ekki er búist við að lægi fyrr en líður á kvöldið.

„Öll tiltæk björgunartæki björgunarsveita á svæðinu, slökkviliðs og lögreglu hafa verið notuð við lokanir í nótt,“ segir í tilkynningu lögreglunnar. Jafnframt er tekið fram að björgunarsveitarmenn hafi verið á ferðinni um bæinn til að lágmarka foktjón á öðrum stöðum.

mbl.is