Viðbúnaður fyrir austan

Lögreglan á Austurlandi biðlaði til fólks á Austfjörðum að fara …
Lögreglan á Austurlandi biðlaði til fólks á Austfjörðum að fara með gát á ferð sinni um vegi fjórðungsins. mbl.is/Sigurður Bogi

Hús voru rýmd á Seyðisfirði síðdegis í gær vegna úrkomuspár á Austurlandi. Um var að ræða hús við Strandarveg og við Hafnargötu, mestmegnis atvinnuhúsnæði. Óvissustig almannavarna var virkjað og appelsínugul viðvörun tók gildi á miðnætti.

Engin sýnileg hreyfing var á fjallinu Strandartindi á Seyðisfirði samkvæmt mælitækjum Veðurstofunnar á níunda tímanum í gærkvöldi.

„Við höfum ekki fengið fréttir af neinum hreyfingum í fjallinu en hins vegar eru viðmið um úrkomumagn og ákefð yfir mörkum. Þessar spár sem við erum að fá núna eru langt yfir þessum viðmiðunarmörkum,“ sagði Esther Hlíðar Jensen, ofanflóðasérfræðingur á snjóflóða- og skriðuvakt Veðurstofu Íslands.

Hún sagði að vakt yrði vegna þessa á Veðurstofunni í alla nótt auk þess sem menn væru á staðnum við að vakta svæðið.

Fólk fari með gát

Lögreglan á Austurlandi biðlaði til fólks á Austfjörðum að fara með gát á ferð sinni um vegi fjórðungsins.

„Á það ekki síst við þar sem ekið er undir bröttum hlíðum, svo sem við Kambanes og Njarðvíkurskriður, við Grænafell, Hólmaháls og fleiri slíka staði,“ sagði í tilkynningu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: