Bæjarstjóri biður bæjarfulltrúa afsökunar

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, hefur beðið Helgu Jóhönnu Oddsdóttur, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, afsökunar á orðum sínum sem hann lét falla í andsvari við ræðu hennar á bæjarstjórnarfundi í gær. 

Um mikinn misskilning virðist vera að ræða en í ræðu Helgu, sem snéri að myglumálum í skólabyggingum bæjarins og gámakennslustofunum sem voru reistar fyrir nemendur í kjölfarið, hrósar hún starfsfólki bæjarins en segir þó um leið að bæjarstjórn þurfi að axla ábyrgð á stöðunni sem upp sé komin.

Í kjölfar þessara ræðu Helgu steig Kjartan upp í pontu og gagnrýndi hana harðlega.

„Ég er alveg forviða á því hvernig bæjarfulltrúinn talar til okkar starfsfólks sem leggur sig fram daga og nótt við að leysa þessi mál.“

Helga Jóhanna fór upp í pontu í kjölfar ræðu Kjartans til að svara honum og sagði meðal annars:

„Ég ætla byrja hér uppi á því að fyrirgefa bæjarstjóra að hafa misskilið orð mín svona svakalega. Ég tók það skýrt fram að starfsfólk sveitarfélagsins er búið að lyfta grettistaki í þessum aðstæðum.“

Myndbandið í fréttinni hefst á sama tíma og Helga stígur fyrst upp í pontu. 

Horfði á ræðuna og sá misskilninginn

Kjartan svaraði Helgu ekki á fundinum en kveðst í samtali við mbl.is vera búinn að tala við Helgu í kjölfar fundarins.

„Ég er búinn að tala við Helgu Jóhönnu síðan og biðja hana afsökunar. Ég heyrði greinilega ekki alveg hvað hún sagði. Ég hlustaði á þetta og sá að ég hafði misskilið hana,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is

Eins og mbl.is hefur áður fjallað um þá hefur mikil óánægja ríkt meðal foreldra en skólahaldi í Myllubakkaskóla var frestað og að þeirra mati tók við í kjölfar hvorki nógu góðar námsaðstæður né kennslutími fyrir börnin.

mbl.is