Gætu þurft að greiða til baka á annan tug milljóna

Í úrskurði ráðuneytisins segir að sérstaka heimild skorti í lögum …
Í úrskurði ráðuneytisins segir að sérstaka heimild skorti í lögum fyrir gjaldtökunni sem reglugerðin mælir fyrir um. mbl.is/Sigurður Bogi

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, reiknar með að fyrirtækið þurfa að greiða birgjum allt að fjögur ár aftur í tímann vegna ólögmætrar gjaldtöku sýnishorna.

Gæti fjárhæðin numið þremur til fjórum milljónum fyrir hvert ár, að sögn Sigrúnar, sem tekur þó fram að upphæðin liggi alls ekki fyrir að svo stöddu.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið úrskurðaði í dag að gjaldtaka ÁTVR vegna öflunar sýnishorna áfengis til gæðaeftirlits hefði ekki stoð í lögum. ÁTVR byggði gjaldtökuna á 43. gr. vöruvalsreglugerðar þar sem fram kemur að vegna gæðaeftirlits sé ÁTVR „ávallt heimilt, á kostnað birgis, að taka sýnishorn vöru úr vörubirgðum eða kalla eftir sýnishorni frá birgi.“

Gæðaeftirlit heldur áfram

Í úrskurði ráðuneytisins segir hins vegar að sérstaka heimild skorti í lögum fyrir gjaldtökunni sem reglugerðin mælir fyrir um.

Sigrún segir úrskurð ráðuneytisins kalla á nýtt verklag og að fulltrúa ÁTVR muni funda með ráðuneytinu í framhaldinu. 

Býst hún við því að breytingar verði gerðar á reglugerðinni eða þá lögum breytt svo heimild sé fyrir gjaldtökunni.

Hún ítrekar þó að ÁTVR muni ekki hætta gæðaeftirliti.

mbl.is