Komu sér undan tugmilljóna skattgreiðslum

Málið er flutt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið er flutt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn

Tveir karlmenn á fimmtugsaldri hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir meiri háttar skattalagabrot. Annar mannanna er ákærður fyrir skattabrot þriggja fyrirtækja og að hafa sjálfur ekki greitt staðgreiðslu af tugum milljóna tekjum, en sá síðari er ákærður fyrir skattalagabrot í tengslum við eitt af fyrirtækjunum þremur.

Fyrri maðurinn, sem jafnframt er sá eldri af þeim tveimur, er sakaður um að hafa komist hjá því að greiða samtals 48,5 milljónir í virðisaukaskatt í rekstri tveggja fyrirtækja sem hann var í forsvari fyrir.

Þeir eru svo báðir ákærðir fyrir bæði virðisaukaskattsbrot og að greiða ekki staðgreiðslu í rekstri þriðja fyrirtækisins. Er sá eldri sagður hafa komist hjá því að greiða 15 milljónir í virðisaukaskatt og 12,3 milljónir í staðgreiðslu, en sá yngri er sakaður um brot upp á 15,6 milljónir í virðisaukaskatt og 14,9 milljónir í staðgreiðslu. Samtals nema brot þeirra tengd þessu félagi tæplega 58 milljónum.

Ná þessi brot til áranna 2020 til 2021.

Að lokum er eldri maðurinn ákærður fyrir að hafa sjálfur ekki staðið skil á tekjuskatti árin 2017 til 2019, en um var að ræða tæplega 69 milljónir yfir tímabilið sem voru greiddar frá níu lögaðilum. Í ákærunni segir að hann hafi með þessu komið sér hjá því að greiða 27,8 milljónir í tekjuskatt og útsvar. 

Heildarupphæð skattaundanskota sem ákært er fyrir í málinu í heild hleypur því á rúmlega 134 milljónum króna.

mbl.is