Leifur er lentur

Leifur Hallgrímsson, til hægri, og Hallgrímur Páll sonur hans á …
Leifur Hallgrímsson, til hægri, og Hallgrímur Páll sonur hans á Reykjavíkurflugvelli í gær. Lokalending og langur ferill nú orðinn saga. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég kveð flugið með söknuði en vinir mínir segja að þetta sé ekkert mál. Lífið haldi áfram eftir lokalendingu. Ég finn mér því eitthvað annað að gera, nú þegar skemmtilegum ferli lýkur,“ segir Leifur Hallgrímsson flugstjóri hjá Mýflugi.

Hann verður 65 ára í dag, 20. september, og þarf því að láta af störfum sem atvinnuflugmaður, rétt eins og reglur kveða á um. Síðasta ferðin var í gær; eins konar þríhyrningur um Ísland.

Heimahöfn á Akureyri

Leifur Hallgrímsson hefur um langt árabil staðið að rekstri Mýflugs og sjálfur bæði stýrt rekstri fyrirtækisins og verið í loftinu. Vélar félagsins hafa heimahöfn á Akureyri og þaðan er sjúkraflug um landsbyggðina sem félagið hefur sinnt skv. samningum við ríkið.

Flugferðir með sjúklinga hafa gjarnan verið um 900 á ári. Sjálfur á Leifur um 8.000 flognar stundir að baki eftir feril sem spannar nærri 40 ár.

Með tilliti til fjarlægða þykir vel henta að miðstöð sjúkraflugs sé fyrir norðan. Þaðan er um um 40 mínútna flug til Ísafjarðar og svipað til Eyja en frá þessum stöðum og öðrum er svo yfirleitt flogið áfram með sjúklingana til Reykjavíkur.

Þá tekur flugið frá Akureyri til Hornafjarðar um þrjátíu mínútur, en þá leið og áfram til Reykjavíkur flaug Leifur í gær í sinni síðustu ferð. Var þá með Hallgrími Páli syni sínum sem er flugmaður. Þeir feðgar flugu svo úr borginni norður til Akureyrar síðdegis, með viðkomu í Vestmannaeyjum.

Leifur kveðst munu starfa hjá Mýflugi við ýmis verkefni að minnsta kosti fram til áramóta en þá tekur Norlandair ehf. við sjúkrafluginu, skv. niðurstöðum útboðs í sumar.

Nán­ar má lesa um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: