Talið gerast aðeins einu sinni á öld

Einar segir í samtali við mbl.is að spár hafi í …
Einar segir í samtali við mbl.is að spár hafi í raun og veru ekki gert ráð fyrir að rigningin yrði slík í Neskaupstað. Frekar hafi verið horft norðar á Austfirði eða til Seyðisfjarðar og Loðmundarfjarðar. mbl.is/Sigurður Bogi

Gríðarlegt úrhelli gerði í Neskaupstað í gærdag. Frá klukkan 13 til 18 mældist úrkomuákefðin samfellt yfir 10 mm á klst. Það jafngildir því að hellt væri úr meira en 10 mjólkurfernum á hvern fermetra lands á hverri klukkustund.

Um þetta fjallar Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á Bliku og Veðurvaktinni.

Í samtali við mbl.is segir hann að úrkoman hafi mælst 116,2 mm frá hádegi til miðnættis.

Spár gerðu ekki ráð fyrir úrkomunni

Í greiningu Veðurstofu Íslands um endurkomutíma úrkomu sem Einar hefur áður vitnað til má sjá að 12 klukkustunda samanlögð úrkoma með 100 ára endurkomutíma er 104 mm fyrir Neskaupstað.

Segir Einar í færslu sinni að hvergi hafi rignt meira í gær en einmitt þar eða sem nemur 171 millimetrum.

Sólarhringsúrkomuna segir hann einnig yfir 100 ára markgildinu sem og 48 klukkustunda úrkomuna þar sem í fyrradag mældust 108 millimetrar.

Einar segir í samtali við mbl.is að spár hafi í raun og veru ekki gert ráð fyrir að rigningin yrði slík í Neskaupstað. Frekar hafi verið horft norðar á Austfirði eða til Seyðisfjarðar og Loðmundarfjarðar.

„Það er ekki gott að sjá fyrir hvar úrkoman kemur niður. Jafnvel ekki innan sama fjarðar eða jafnvel milli bæjarhluta.“

Einu sinni á hverjum 100 árum

100 ára markgildið segir Einar að mæli sjaldgæfleika úrkomuákefðar sem þýðir á mannamáli að á 12 klukkustunda tímabili gerist það einu sinni á hverjum 100 árum að jafnaði að úrkoman nái því markgildi.

Byggir markgildið á gögnum frá árunum 1979 til 2017 þar sem skoðuð er dreifing úrkomugilda og svo notaðar þekktar aðferðir til að framreikna þá dreifingu og áætla markgildið.

mbl.is