Heildarsala sýklalyfja fyrir fólk hér á landi jókst í fyrra miðað við næstu tvö árin þar á undan en þá ber að hafa í huga að á árunum 2020 og 2021, á meðan faraldur covid-19 geisaði og víðtækar sóttvarnaaðgerðir voru í gangi, dróst sala sýklalyfja umtalsvert saman.
Var heildarsala sýklalyfja á seinasta ári svipuð og á árinu 2019. Ef litið er lengra aftur þá var heildarsala sýklalyfja í hámarki á árinu 2017 en hún dróst svo saman 2018 og um rúm 9% á árinu 2019 frá árinu á undan.
„Nú virðist staðan aftur orðin svipuð og hún var fyrir faraldurinn. Sala á sýklalyfjum til sjúkrastofnana hefur aftur á móti minnkað en hlutfallsleg notkun á mikilvægum breiðvirkum sýklalyfjum hefur hins vegar aukist þar. Hlutfallsleg notkun á þröng- og breiðvirkum sýklalyfjum utan stofnana er áfram hagstæð,“ segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir í formála nýútkominnar skýrslu um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi hjá mönnum og dýrum á síðasta ári, sem landlæknisembættið gefur út í samstarfi við Matvælastofnun.
Ef litið er á þróunina á undanförnum áratug kemur í ljós að fjöldi ávísana sýklalyfja á hverja þúsund íbúa hefur dregist saman á þessum tíma. Notkunin er þó enn umtalsverð í samanburði við nágrannaþjóðirnar og er meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum en í meðallagi miðað við notkunina almennt í löndum Evrópusambandsins og á Evrópska efnahagssvæðinu.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.