Banamaður Kambans nafngreindur í fyrsta sinn

Leiði Guðmundar Kambans er í Fossvogskirkjugarði.
Leiði Guðmundar Kambans er í Fossvogskirkjugarði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Daginn sem Danir fögnuðu því að hersetu Þjóðverja lauk 5. maí 1945 voru nokkrir einstaklingar teknir af lífi, án dóms og laga, af félögum í dönsku andspyrnuhreyfingunni. Meðal fórnarlamba þeirra var Guðmundur Kamban rithöfundur.

Aldrei hefur verið upplýst hver skaut Kamban til bana, annað en að vitað var að það var foringi í dönsku andspyrnuhreyfingunni.

Í grein í Morgunblaðinu í dag upplýsir Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, hver banamaður Kambans var. Hét hann Egon Alfred Højland.

Á sama tíma og Danir flykktust út á götur Kaupmannahafnar …
Á sama tíma og Danir flykktust út á götur Kaupmannahafnar 5. maí 1945 og fögnuðu frelsinu undan hernámi Þjóðverja notuðu hefndarþyrstir félagar í dönsku andspyrnuhreyfinguni tækifærið til að elta uppi landa sína og fleiri menn sem þeir töldu, með réttu eða röngu, hafa átt í samstarfi við nasista.

Gögnin lokuð í 70 ár

Greint var frá atvikinu í Kaupmannahöfn 1945 í bók Ásgeirs Guðmundssonar sagnfræðings, Berlínarblús, sem kom fyrst út árið 1996. Fékk Ásgeir aðgang að gögnum danskra stjórnvalda fyrir 30 árum, gegn því að nafngreina ekki banamanninn. Að öðrum kosti lá við hálfs árs fangelsi. Voru gögnin lokuð í 70 ár, eða til 2015.

Højland var foringi í andspyrnuhópnum Ringen í Kaupmannahöfn. Hann var tæplega þrítugur þegar hann mætti upp úr hádegi 5. maí 1945 með tveimur félögum sínum og bílstjóra á gistiheimilið við Upsalagade í þeim tilgangi að handtaka Kamban.

Mennirnir voru allir vopnaðir, Højland með skammbyssu en félagar hans með skammbyssu og vélbyssu. Þeir höfðu verið að alla nóttina, leitað uppi og handtekið fjölda manna eftir lista sem þeir höfðu undir höndum um vitorðsmenn þýska hernámsliðsins.

Guðmundur Kamban rithöfundur.
Guðmundur Kamban rithöfundur.

„Skjótið bara, sama er mér!“

Þegar hópurinn kom á gistiheimilið sat Guðmundur Kamban að snæðingi með dóttur sinni, en kona hans var í herbergi þeirra. Dyravörðurinn benti á hann. Einhver nefndi að þarna sæti „prófessor Kamban“ eins og hann var gjarnan nefndur. Højland lét þess getið við yfirheyrslur hjá lögfræðingnum að hann hefði kannast við nafnið, hefði heyrt eða lesið í blöðum andspyrnuhreyfingarinnar að Kamban væri nasisti og hefði samband við Þjóðverja. Hann gekk að borðinu, miðaði byssunni á Kamban og bað hann að koma með þeim, því hann væri handtekinn.

Ásgeir greinir frá því að Kamban hafi staðið á fætur en neitað að fara með andspyrnumönnum, sagt að þeir hefðu enga heimild til að handtaka sig. Þegar Kamban neitaði ítrekað að láta undan kvaðst Højland mundu skjóta hann ef hann hlýddi ekki. Að sögn viðstaddra hafi Kamban þá sagt: „Skjótið bara, sama er mér.“ (Så skyd, jeg er ligeglad.)

Stóð í þófi nokkurn tíma og sló Kamban um sig, áfram mjög æstur. Allt í einu stakk hann annarri hendinni snöggt í vasa sinn, en það mun hafa verið kækur hans þegar hann var í geðshræringu, og kvaðst Højland hafa brugðið svo við þetta að hann hleypti af á þriggja metra færi og hæfði kúlan Kamban í gagnaugað. Hann lést samstundis.

Að svo búnu fóru andspyrnumenn á brott og héldu áfram að handtaka samverkamenn Þjóðverja víðs vegar um Kaupmannahöfn.

Nán­ar má lesa um málið í Morg­un­blaðinu í dag eða hér á mbl.is:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Loka