Næturfrost og hálka á fjallvegum

Hálka er á fjallvegum á norðausturhluta landsins.
Hálka er á fjallvegum á norðausturhluta landsins. Kort/Vegagerðin

Víða var næturfrost í nótt sem leið bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Það var til að mynda næturfrost við Korpu, í Víðidal og Urriðaholti en ekki alls staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að næturfrost hafi víða verið í lægðum og inn til landsins en síst á Austfjörðum og Vestfjörðum.

Segir hann að næstu nótt megi búast við næturfrosti víðar á landinu en síðan gæti hlýnað lítillega. Tekur hann þó fram að eftir því sem líður á haustið verði næturfrost í meira mæli sem eðlilegt er.

Birgir segir einhverja hálku á fjallvegum á norðausturhluta landsins. Það sé einhver úrkoma bæði á Norður og Austurlandi og snjókoma á fjallvegum.

Að öðru leyti segir Birgir að greiðfært sé um land allt. Segir hann þá ekki útlit fyrir að skilyrði verði svo hálka myndist næstu daga á höfuðborgarsvæðinu. Það verði frekar þurrt og ef það fari svo að það fari að rigna þá muni trúlega ekki frysta um leið.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is