Nauðsynlegt að uppræta fordómana og skömmina

Samskipti erlendra hermanna við innlendar stúlkur sköpuðu ólgu í samfélaginu. …
Samskipti erlendra hermanna við innlendar stúlkur sköpuðu ólgu í samfélaginu. Fjölmiðlaumræða varð snemma einsleit í þá veru að um þjóðfélagsmein væri að ræða og það yrði að uppræta, að því er fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Tuttugu og tveir þingmenn hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum og aðgerðum íslenskra yfirvalda gegn samskiptum íslenskra stúlkna við erlenda hermenn á árum síðari heimsstyrjaldar.

Þverpólitísk samstaða er um málið á Alþingi, en í tillögunni kemur fram að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að rannsaka starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum á árunum 1942–1943.

Skuli kanna hvort mannréttindabrot hafi verið framin

Sérstaklega verði rannsakaðar aðgerðir yfirvalda til að sporna við samskiptum íslenskra kvenna við erlenda hermenn í kjölfar hernámsins 1940. Áhersla verði lögð á að kanna hvort mannréttindabrot hafi verið framin af hálfu íslenskra yfirvalda, að því er segir í þingsályktunartillögunni. 

Tillagan var áður flutt á 145. og 153. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú lögð fram á ný.

Í greinargerð með tillögunni segir að það sé mikilvægt að rannsóknin fari fram sem fyrst, þar sem langt sé um liðið og möguleiki á því að sönnunargögn tapist. Enn sé tækifæri til að upplýsa um starfsemina á Kleppjárnsreykjum og að biðja þær sem urðu fyrir mannréttindabrotum af hálfu ríkisins afsökunar, en sá tími styttist og því afar mikilvægt að hefja og hraða rannsókninni eins og kostur sé.

Enn eimir eftir af fordómum og ekki of seint að biðjast afsökunar

„Brýna nauðsyn ber til þess að upplýst verði með opinberri rannsókn hvað raunverulega átti sér stað á Kleppjárnsreykjum og við lögreglurannsóknir á ungum konum í kjölfar komu erlendra herliða til landsins. Enn eimir eftir af fordómum í garð þeirra kvenna sem voru viðfangsefni þessara rannsókna og sættu jafnvel frelsissviptingu í kjölfarið. Sumar þessara kvenna eru enn á lífi og ekki of seint að þeim verði veitt opinber afsökunarbeiðni. Nauðsynlegt er að uppræta fordómana og skömmina sem þessar konur máttu þola alla sína tíð, og þola jafnvel enn. Þeim og aðstandendum þeirra ber að veita uppreist æru sinnar eins fljótt og auðið er,“ segir jafnframt í greinargerðinni með tillögunni. 

mbl.is