Það var gott hljóð í Gauta Árnasyni, forseta bæjarstjórnar Hornafjarðar, þegar mbl.is náði tali af honum á fjármálaráðstefnu sveitafélaga sem hófst á Hilton hótelinu í morgun.
„Staða sveitafélagsins er mjög góð. Okkur fjölgar og það skynsamlega þannig að við náum að halda innviðunum í takti við fjölgunina,“ sagði Gauti en á þriðja þúsund manns búa í sveitafélaginu.
Gauti segir að það sé mikil uppbygging í ferðaþjónustunni. Hann segir að sjávarútvegurinn gangi mjög vel og sé mjög blómlegur.
„Ferðamennirnir eru komnir á flug aftur. Íbúafjöldi í Hornafirði er 2.600 manns og rúmlega sá fjöldi af ferðamönnum gistir hjá okkur á hverri nótt,“ segir Gauti en mikill vöxtur hefur verið í ferðaþjónustu á svæðinu og staðir eins Skaftafell, Jökulsárlón og Öræfajökull eru heimsóttir af tugþúsundum manna á hverju ári.
Spurður hvort innviðirnir í sveitarfélaginu þoli þennan fjölda segir Gauti:
„Það er einn og einn sem pirrar sig yfir því og segist ekki komast að í búðinni en þá þurfum við bara að stuðla að því að menn geti stækkað fyrirtæki sín og byggt nýjar búðir. Við erum að skipuleggja nýjar lóðir og ný hverfi, bæðir fyrir íbúðir og þjónustu,“ segir Gauti.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður samtaka sveitarfélaga, sagði í samtali við mbl.is í gær að flest sveitarfélög á landinu væru rekin með tapi. Spurður um fjárhagstöðu Hornafjarðar sagði Gauti;
„Hún stendur mjög vel. Við höfum verið vel rekið sveitarfélag í mjög mörg ár og verður það vonandi áfram. Það er bjart yfir Hornfirðingum enda erum við í jöklana skjóli,“ sagði Gauti að lokum.
Sveitarfélagið var rekið með 232 milljóna króna afgangi í fyrra og tveggja milljóna afgangi árið 2021. Fjárhagsáætlun ársins í ár gerir ráð fyrir 239 milljóna afgangi.