„Við glímum auðvitað við mörg mál eins og öll sveitarfélög,“ sagði Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, í samtali við mbl.is á fjármálaráðstefnu sveitafélaga sem nú stendur yfir í Reykjavík.
Húsavík, Raufarhöfn og Kópasker tilheyra Norðurþingi en samanlagður íbúafjöldi er á fjórða þúsund. Katrín tók við starfi sveitarstjóra Norðurþings í júlí 2022.
„Núna erum við glíma við að koma nýju hjúkrunarheimili í útboð í Norðurþingi og þá er stórt mál í gangi í að halda áætlunarflugi til Húsavíkurflugvallar fyrir Þingeyjarsýslu. Það er miklu stærra mál en ég held að margur gerir sér grein fyrir því þetta snertir almenning, aðgengi að sjúkraþjónustu, atvinnulíf og ferðaþjónustuna,“ segir Katrín.
Flugfélagið Ernir hyggst leggja flug til Húsavíkur niður um næstu mánaðamót en Katrín segir að unnið sé að því að reyna að tryggja áframhaldandi flug. „Við erum að gera okkar allra besta til að flugið til Húsavíkur haldi áfram og á maður ekki að vera bjartsýn þangað til niðurstaða liggur fyrir. Það er keppnisskap í okkur og við berjumst fyrir þessu,“ segir Katrín.
Katrín segir að ferðaþjónusta sé mikilvæg auðlind í Norðurþingi.
„Við erum að fá mjög margt fólk í hvalaskoðun enda er Skjálfandi einn aðal hvalaskoðunarstaður í heiminum. Við erum mjög heppin í rauninni með fyrirtækin sem eru að þjónusta þann iðnað. Svo erum við staðsett við demantshringinn en það er hringurinn sem opnaðist þegar nýi Dettifossvegurinn var lagður. Svo vorum við svo glöð að það skyldi nást þessi skemmtilega fréttamynd af heimskautsgerðinu á Raufarhöfn. Við berum von í brjósti að bara svona myndbirting muni tryggja okkur ferðamenn til framtíðar fyrir það svæði,“ segir sveitarstjórinn í Norðurþingi.
Það er ekki hægt að sleppa Katrínu án þess að spyrja hana út í fjárhagsstöðu Norðurþings.
„Fjárhagstaðan mætti alveg vera betri. Það sem er er að íþyngja okkur núna er hátt vaxtastig. Það fer mikið í fjármagnskostnað og þegar laun hafa hækkað mikið þá er hækkun lífeyrisskuldbindinga mjög mikil. Þetta er svo gremjulegt. Það er verið að berjast við að ná hagræðingu í reikningana en þá fara þeir á hvolf við þessar tvær tölur. Við erum að fara inn í fjárhagætlunargerð og það eru miklar áskoranir.“
Tap varð af rekstri sveitarfélagsins í fyrra upp á 39 milljónir, en afgangur upp á 79 milljónir árið 2021.