Tilkynningum um heimilisofbeldisbrot hefur fækkað lítillega miðað við tölur frá því í fyrra. Heimilisofbeldismál hjá lögreglu hafa aftur á móti aldrei verið fleiri en í fyrra, en fjöldi tilkynninga síðan þá hefur aðeins dregist saman um 3,5%, þegar miðað er við fyrri helming beggja ára.
Fyrstu sex mánuði ársins 2022 var tilkynnt um heimilisofbeldi 590 sinnum til lögreglu. Tilkynningum hefur fækkað síðan þá en þó ekki mikið, þar sem 569 tilkynningar bárust lögreglu fyrsta helming þessa árs.
„Við sjáum ekki miklar breytingar á þessu ári, alla vega ekki núna fyrstu sex mánuðina,“ segir Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri afbrotavarna hjá Ríkislögreglustjóra (RSL).
Í kórónuveirufaraldrinum fjölgaði tilkynningum um heimilisofbeldi hér á landi, en Eygló segir að svo hafi ekki gerst alls staðar í heiminum. „Það voru áhyggjur af aukinni tíðni ofbeldis en víða fóru tilkynningar niður.“
Nú hefur veiran lítil sem engin áhrif á líf almennings en samt sem áður hefur tilkynningum um heimilisofbeldi ekki farið fækkandi. Eygló vonar þó að aukin vitundarvakning valdi aukningu í tilkynningum, en ekki fjölgun tilfella.
„Við erum að vonast til þess að vitundarvakningin og umræðan í samfélaginu geri það að verkum að fólk sé að átta sig betur á birtingarmyndum ofbeldis og leiti sér fyrr aðstoðar.“
RSL gerir einnig kannanir þar sem fólk er spurt hvort það hafi orðið fyrir brotum árið á undan. Þær kannanir gefa ekki aukna tíðni ofbeldis í skyn, að sögn Eyglóar, en þó á eftir að gera könnun er varðar árin 2023 og 2022. Gefi það í skyn að það hafi ekki endilega verið aukning á ofbeldi heldur fjölgun tilkynninga.
„Við höfum ekki séð að það hafi orðið verulegar breytingar á hefðbundnari birtingarmyndum ofbeldis. En við höfum séð smá hækkun þegar kemur að andlegu ofbeldi.“
„Það virðist ekki hafa orðið mikið aukin tíðni heldur virðist vera að fólk hafi í raun og veru leitað aðstoðar, sem við vonum svo sannarlega,“ segir Eygló að lokum.