Tími til kominn að málið sé klárað

Guðmundur Kamban var ömmubróðir Helgu Völu Helgadóttur.
Guðmundur Kamban var ömmubróðir Helgu Völu Helgadóttur. Samsett mynd/Eyþór/Kristinn

„Ég tek undir með honum [Guðmundi Magnússyni] að mér finnst það skrítið að banamaður ömmubróður míns hafi aldrei þurft svara fyrir það sem hann gerði,“ segir Helga Vala Helgadóttir og bætir við að hún sé ekki að leita að neinni hefnd. 

Morgunblaðið opinberaði í dag í grein Guðmundar Magnússonar nafn banamanns Guðmundar Kamban, rithöfundar, leikskálds og leikstjóra. Hét hann Egon Al­fred Høj­land og var foringi í dönsku andspyrnuhreyfingunni. Hefur nafn hans ekki verið birt opinberlega áður. 

„Það að dönsk stjórnvöld skyldu greiða ekkju Kambans lífeyri út ævina er að mínu mati staðfesting á því að hann var veginn saklaus fyrir framan dóttur sína í morgunverðinum. Og það var auðvitað þannig. Þá er skrítið að það hafi ekki haft neinar afleiðingar fyrir banamanninn,“ segir Helga Vala í samtali við mbl.is. 

Viðurkenning skiptir máli

Helga Vala bætir því við að auðvitað sé Høj­land látinn í dag en það breyti því ekki að viðurkenning á því að Kamban hafi verið veginn saklaus skipti máli. 

„Dönsk stjórnvöld sýndu ástandinu skilning með því að greiða henni lífeyri. Þetta gerist auðvitað áður en ég fæðist, en ég heyrði frá mömmu hvernig áhrif þetta hafði á mömmu hennar, sem var systir Guðmundar. Þau voru mjög náin og þetta var þeim öllum gríðarlega þungbært,“ segir Helga Vala og bætir við: „Þetta var bara aftaka. Þetta var svo ofboðslegur verknaður.“

Hún segist vera þakklát fyrir að nafnið sé loksins gert opinbert. 

„Það er skrítið að fræðimaðurinn, sagnfræðingurinn Ásgeir Guðmundsson, hafi þurft að gera þann samning að mega ekki miðla nafninu. Hann fékk að sjá þessi gögn fyrir 30 árum. Af hverju var verið að hlífa banamanninum svona?“

Leiði Kambans í Fossvogskirkjugarði.
Leiði Kambans í Fossvogskirkjugarði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðrir tímar í dag

Helga Vala segir fjölskylduna vera að lesa og meðtaka upplýsingarnar. „Ég held það væri ekkert úr vegi að klára málið og ræða við dönsk stjórnvöld um að fá formlega afsökunarbeiðni,“ segir Helga Vala. 

Finnst þér íslensk stjórnvöld eiga að beita sér fyrir því?

„Við getum reynt að hafa eitthvað frumkvæði. Það er gott fólk sem stóð honum nærri. Auðvitað voru íslensk stjórnvöld að vinna í þessu á sínum tíma. En í dag eru kannski aðrir tímar og tími til kominn að þetta sé klárað,“ segir Helga Vala. Hún segir fjölskylduna ekki munu aðhafast neitt fyrr en búið er að ræða málið við afkomendur Guðmundar Kambans. 

Lesa má umfjöllun Guðmundar Magnússonar um Guðmund Kamban og banamann hans í Morgunblaðinu í dag. 

mbl.is