Varar við hættum á beygjureinum

Erlendur setti saman mynd sem sýnir gatnamót Njarðargötu og Hringbrautar. …
Erlendur setti saman mynd sem sýnir gatnamót Njarðargötu og Hringbrautar. Rauða keilan sýnir hvert ökumaður í beygjureininni er líklegast að horfa, áður en hann heldur til hægri út á hringbraut. Hjólreiðarmenn sem koma eftir bæjarleiðinni, úr hinni áttinni, eru þannig ekki í sjónlínu ökumannsins, nema ökumaðurinn horfi til beggja átta. Mynd/Erlendur S. Þorsteinsson

Hjólreiðamaður varar vegfarendur við hættu sem getur skapast í beygjureinum og hvetur bæði ökumenn og aðra til þess að horfa í kringum sig í umferðinni. Lausn við hættunni að finna í stefnu Reykjavíkurborgar. 

Ekið var á hjól­reiðamann á gatna­mót­um Njarðargötu og Hring­braut­ar á tí­unda tím­an­um í gær­morg­un. Hjól­reiðamaður­inn var á leið yfir gatna­mót Njarðargötu og Hring­braut­ar þegar ökumaður á leið til hægri, inn á Hringbraut frá Njarðargötu, ók á hann.

Hönnunarvandamál

Erlendur S. Þorsteinsson hjólreiðamaður segir beygjurein, líkt og þá sem er á gatnamótum Njarðargötu og Hringbrautar, hönnunarvandarmál og hvetur hjólreiðamenn til að fara varlega.

„Grunnvandamálið er þegar ökumaður kemur inn í beygjureinina, fer fram hjá ljósunum og endar á biðskyldu,“ segir Erlendur, enda tilhneiging ökumanna að horfa í átt að umferðinni á akreininni sem ökumaðurinn ætlar að keyra inn á, en ekki í hina áttina. 

„Ef það koma síðan hjólreiðamenn úr hinni áttinni þá er mjög algengt að ökumenn sjái þá ekki,“ segir Erlendur og því þykir honum ástæða til að vara hjólreiðamenn við. 

Hann segir flesta hjólreiðamenn þó meðvitaða um hættuna og því geri fæstir ráð fyrir að bílstjórinn sjái þá, fyrr en augnsamband hefur náðst. 

Hvetur vegfarendur til að fara varlega

Það er þó ekki einungis hjólreiðamanna að vara sig, heldur þurfa bílstjórar líka að hafa varan á. 

„Það er allt öðruvísi umferð nú heldur en hefur verið undanfarna áratugi,“ segir 
Erlendur og á við að nú séu mun fleiri gangandi og hjólandi vegfarendur.

Aðspurður segir hann Reykjavíkurborg vera með stefnu um að fjarlægja beygjureinar í borginni. Þegar sú framkvæmd hefur verið unnin hverfur hættan af beygjureinum. Hann segir það þó ganga fremur hægt en skilur vel að borgin þurfi að forgangsraða verkefnum. 

Þangað til búið er að fjarlægja beygjureinar í borginni, hvetur hann vegfarendur til að fara með gát og horfa til beggja átta. 

mbl.is