Karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir að hafa á vítaverðan og ógnandi hátt hafið eftirför eftir annarri bifreið sem ekið var í Kjós og reynt að þvinga bílinn út af veginum. Í bílnum voru ökumaður og farþegi, en maðurinn er sagður hafa stofnað lífi og heilsu þeirra í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt.
Í ákæru málsins kemur fram að maðurinn hafi ekið um á Toyota Corolla bifreið, en hann var jafnframt án gildra ökuréttinda. Eftirför mannsins varði í um 10 km þar sem ekið var í Kjós að kvöldi fimmtudagsins 24. júní árið 2021.
Lögreglan var kölluð á vettvang og gaf honum fyrirmæli um að stöðva bifreiðina. Hann varð hins vegar ekki við því og ók inn Hvalfjarðarveg og inn á Eyrarfjallsveg þar sem hann stöðvaði bifreiðina við afleggjarann að bæ einum.
Maðurinn er einnig ákærður fyrir að hafa haft í vörslu sinni hníf með 18 cm löngu hnífsblaði.
Auk þess sem saksóknari fer fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar, fara bæði ökumaður og farþegi hinnar bifreiðarinnar fram á 3 milljónir í miskabætur hvor.
Málið er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og er aðalmeðferð fyrirhuguð í október.