35 þúsund viðskiptavinir lentu í villunni

Pósturinn hefur beðist velvirðingar á mistökunum.
Pósturinn hefur beðist velvirðingar á mistökunum. Ljósmynd/Pósturinn

Pósturinn er búinn að endurgreiða meirihluta viðskiptavina sinna vegna kerfisvillu í innheimtu á sendingargjaldi á ákveðnum tegundum innfluttra sendinga.

Í fréttatilkynningu fyrir helgi baðst Pósturinn velvirðingar á mistökunum og sagði það forgangsmál að endurgreiða öllum hlutaðeigandi.

Að sögn Gunnars Þórs Tómassonar, fjármálastjóra Póstsins, lentu um 35 þúsund viðskiptavinir Póstsins í kerfisvillunni. Vegna þess að um trúnaðarupplýsingar er að ræða getur hann ekki veitt upplýsingar um heildarupphæð endurgreiðslunnar.

Tekur tíma að endurgreiða öllum

Hann segir það taka tíma að endurgreiða öllum en allt sé á réttri leið. Meðal annars þurfti að finna lausn á því hvernig ætti að endurgreiða þeim sem greiddu með kortum, sem voru um helmingur viðskiptavinanna, og á því núna að vera lokið. 

Þeir viðskiptavinir sem greiddu ekki með kortum geta farið inn á minnpostur.is, sem er læst og örugg síða á vegum Póstsins, og fengið endurgreitt. Aðrir viðskiptavinir sem fara ekki þangað inn fá inneign hjá Póstinum.

„Ef aðilinn hefur ekki kveikt á einu né neinu á kerfið að grípa hann,” segir Gunnar Þór.

mbl.is