B fær að halda dyrunum opnum

Sverrir Einar segir að fjörið haldi áfram.
Sverrir Einar segir að fjörið haldi áfram. Samsettmynd/Aðsend/Ágúst Ólíver

Uppákoman á skemmtistaðnum B við Bankastræti aðfaranótt sunnudags mun ekki hafa áhrif á starfsemina þessa helgi, að sögn Sverris Einars Eiríkssonar, annars eigenda staðarins.

„Opið um helgina og áframhaldandi fjör,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í vikunni var Sverrir Einar handtekinn aðfaranótt sunnudags við eftirlit lögreglu á B. Sverrir Einar sendi í kjölfarið formlega kvörtun vegna vinnubragða lögreglunnar, sem hann segir ekki hafa gætt meðalhófs.

Samkvæmt heimildum mbl.is voru ungmenni, sem ekki höfðu náð 20 ára aldri, inni á staðnum og voru dæmi um að einhver þeirra hefðu greitt sérstaklega fyrir inngöngu. 

Hefur ekki áhrif á rekstrarleyfi

Í samtali við mbl.is leggur Sverrir Einar ríka áherslu á að fulltrúar skemmtistaðarins vilji eiga í góðu samstarfi við lögregluna og að hann vilji ekki að uppákoman síðustu helgi komi í veg fyrir það.

Sveinn Andri Sveinsson, lögfræðingur Sverris Einars, segir að lögreglan hafi heimild til þess að sekta skemmtistaðinn en að atvikið hafi ekki áhrif á rekstrarleyfi staðarins. 

Hann leggur áherslu á að mikilvægt sé að lögreglan gæti meðalhófs við eftirlit, eins og því sem var viðhaft síðustu helgi. Óþarfi sé fyrir fjölmennt lið lögreglunnar í fullum skrúða að koma inn með látum til þess að skoða skilríki. 

Auðvelt að falsa skilríki

„Megingagnrýni lögreglunnar hefur lotið að því að það hafi farið gestir inn á staðinn sem voru ekki komnir með aldur,“ segir Sveinn en bætir við að svo virðist sem að auðvelt sé að falsa skilríki sem erfitt sé að sjá í gegnum. 

Segir hann umbjóðanda sinn hafa leitað ráða hjá lögreglu um hvernig hægt sé að bregðast við þessu. 

„Fyrir það fyrsta hafa menn engan áhuga á því að fá einhverja kúnna þarna inn sem eru ekki komnir með aldur,“ segir Sveinn Andri.

„Sá aldurshópur – hann verslar lítið og lítið á honum að græða,“ bætir hann við.

mbl.is