Egill segir kapalinn ekki ganga upp

Egill Helgason gagnrýnir áform ríkisstjórnarinnar um að koma fyrir dómstól …
Egill Helgason gagnrýnir áform ríkisstjórnarinnar um að koma fyrir dómstól í Þjóðmenningarhúsinu. Samsett mynd

Egill Helgason, þátta­stjórn­andi og bók­mennta­spek­úl­ant, gagnrýnir áform ríkisstjórnarinnar um að koma fyrir dómstól í Þjóðmenningarhúsinu og „tryggja þannig að ekkert lífsmark verði merkjanlegt“ í húsinu. 

Húsnæðismál opinberra stofnanna og framtíðarnýting nokkurra lykilbygginga var meðal þess sem rætt var um á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku.

Á fundinum var ákveðið að ríkisstjórnin myndi kanna möguleika þess að færa Hæstarétt í Þjóðmenningarhúsið og koma þannig starfsemi Landsréttar fyrir í húsnæði Hæstaréttar. 

„Alveg gaggalagú“

Egill Helgason segir hugmyndina í stuttu máli „alveg gaggalagú“, í færslu á Facebook-síðu sinni. Hann segir Þjóðmenningarhúsið hús fyrir almenning að njóta, upplifa og tengjast því besta sem hefur verið gert í byggingarsögu Íslendinga, enda sannkallað menningarhús. 

Margir hafa brugðist við ummælum Egils og lýst ánægju sinni með gagnrýnina.

Egill segir að í kringum dómshús sé lítið líf, „eiginlega and-líf“ og að fæstir vilji láta sjá sig koma inn í dómshús. Þar eru ljós einnig slökkt snemma og lokað um helgar.

Egill spyr því hvort menn vilji „tryggja að sama og ekkert lífsmark verði merkjanlegt í hinu stórkostlega Safnahúsi“, með því að setja þar dómstól.

mbl.is
Loka