Færri nýskráningar á örorku

Hóptími í sjúkraþjálfun. Myndin er úr safni og tengist fréttinni …
Hóptími í sjúkraþjálfun. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki með beinum hætti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Innleiðing nýs greiðsluþátttökukerfis Sjúkratrygginga hefur leitt til lækkunar á fjölda nýskráninga á 75% örorku vegna stoðkerfissjúkdóma. Þetta kemur fram í greiningu og skýrslu Félags sjúkraþjálfara. 

Skýrslan lýtur að þróun á nýgengi örorku og endurhæfingarlífeyris síðustu ár og má ætla að verulega bætt aðgengi að þjónustu sjúkraþjálfara vegna aukinnar kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga eigi hlut í þróuninni. 

Meðalútgjöld lækkuðu um rúm 29.000

Í tilkynningu frá félaginu segir að meðalútgjöld einstaklinga á ári fyrir þjónustu sjúkraþjálfara hafi lækkað úr 42.270 kr., niður í 13.313 kr. á ári við innleiðingu greiðsluþátttökukerfisins. Fjöldi einstaklinga sem nýskráðust á 75% örorku fækkaði um níu, ef borin eru saman árin 2014 og 2022. 

Nýskráning örorku vegna geðraskana og annarra sjúkdóma hefur ekki tekið sömu breytingum og skráningar vegna stoðkerfissjúkdóma og benda því niðurstöður skýrslunnar til þess að þjónusta sjúkraþjálfara sé hagkvæm ráðstöfun opinberra fjármuna. 

Gunnlaugur Már Briem, formaður Félags sjúkraþjálfara.
Gunnlaugur Már Briem, formaður Félags sjúkraþjálfara. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Haft áhrif á þá sem áður neituðu sér um þjónustu

Innleiðing greiðsluþátttökukerfisins var í maí 2017 og hafði veruleg áhrif til lækkunar á kostnað einstaklinga og gerði fleirum fært að sækja sér umrædda þjónustu. Hefur breytingin því sérstaklega haft áhrif á einstaklinga sem áður þurftu að neita sér um þjónustu vegna kostnaðar. 

Þá er tekið fram að nokkur aukning hafi verið í nýskráningum á endurhæfingarlífeyri frá árinu 2008 til 2022, en segir í tilkynningunni að sú aukning skýrist að miklu leiti af aukningu nýskráninga vegna geðraskana. Lítil breyting hafi verið í nýskráningum á endurhæfingarlífeyri vegna stoðkerfissjúkdóma.

mbl.is